
Dagana 10.-15. ágúst heldur Bandalag íslenskra leikfélaga fjölþjóðlega leiklistarhátíð í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Hátíðin er á vegum NEATA, Norður-Evrópska áhugaleikhúsráðsins og verða þar sýndar leiksýningar frá öllum Norðurlöndunum, Lettlandi, Litháen, Rúmeníu og Frakklandi. Frítt er inn á allar sýningar og framlag Freyvangsleikhússins, Vínland, verður lokasýning hátíðarinnar kl. 20:00 13. ágúst í stóra salnum í Hofi. Hátíðin verður sett að kvöldi þriðjudagsins 10. ágúst og verða allar leiksýningar og aðrir viðburðir hátíðarinnar í Menningarhúsinu Hofi. Alls er reiknað með að um 250 manns taki beinan þátt í hátíðinni.
Þema hátíðarinnar er Maður – Náttúra og einkunnarorðin eru Af hjartans list

Hátíðin beinir sjónum að manneskjunni og samskiptum hennar við náttúruna, bæði hvað varðar óblíð náttúruöflin og mannlega náttúru; eilífa baráttu við hatur, ástríður, fordóma og svo mætti lengi telja. Alls verða sýndar 12 leiksýningar á hátíðinni, þar af þrjár íslenskar. Það eru Umbúðalaust frá Leikfélagi Kópavogs í leikstjórn Vigdísar Jakobsdóttur, Birtingur frá Leikfélagi Selfoss og Vínland frá Freyvangsleikhúsinu, báðar í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar.
Auk leiksýninga verður boðið upp á þrjár leiksmiðjur á meðan á hátíðinni stendur, leiðbeinendur á þeim eru Ágústa Skúladóttir, Bernd Ogrodnik og Rúnar Guðbrandsson. Jafnframt mun hátíðarklúbbur verða starfræktur þar sem þátttakendur á hátíðinni munu skemmta sér og öðrum. Boðið verður uppá gagnrýni á sýningar hátíðarinnar og verða gagnrýnendur Dr. Danute Vaigauskaite frá Háskólanum í Klaipeda, Litháen og Þorgeir Tryggvason, leiklistargagnrýnandi og formaður Bandalags íslenskra leikfélaga.
Bandalag íslenskra leikfélaga skipuleggur leiklistarhátíðina í samvinnu við Norður-Evrópska áhugaleikhúsráðið (NEATA), Norræna menningarsjóðinn, Menntamálaráðuneytið, Akureyrarbæ og Menningarhúsið Hof.
þið auglýsið sýninguna kl 20:00 en í auglýsingunni frá neata hátíðinni sjálfri segja þeir að hún verði sýnd kl 21:00…..
frekar misvísandi skilaboð….
Það var auglýstur rangur tími í auglýsingunni frá NEATA. Það er búið að leiðrétta það og réttur tími er nú á heimasíðu NEATA, neata.dk og á síðu BÍL, leiklist.is. Sýningin er s.s. kl. 20:00.