LÖG FREYVANGSLEIKHÚSSINS

  1.  Félagið heitir Freyvangsleikhúsið. Heimili þess og varnarþing er í Eyjafjarðarsveit.
  2.  Tilgangur félagsins er að vekja áhuga á leiklist og að halda uppi leiksýningum og skyldri starfsemi í Freyvangi. Skal að því stefnt að taka til sýningar a.m.k. eitt leikrit á ári. Heimilt er að stofna sjóði innan félagsins til ákveðinna verkefna.
  3.  Rétt til inngöngu hafa allir sem hafa áhuga á leiklist og störfum þar að lútandi. Úrsagnir skulu vera skriflegar og lagðar fram á aðalfundi.
  4.  Aðalfundur fer með æðsta vald í félaginu. Hann skal haldinn að hausti, eigi síðar en 16. september. Aukafundi skal halda svo oft sem þurfa þykir og ef 10 félagsmenn óska þess skriflega. Afl atkvæða ræður úrslitum á fundum. Á aðalfundi skal taka fyrir:
  • skipan fundarritara,
  • skipan fundarstjóra,
  • inntöku nýrra félaga,
  • skýrslu formanns,
  • skýrslu gjaldkera,
  • lagabreytingar ef þarf,
  • kosningar,
  • önnur mál.

Aðalfund skal auglýsa eigi síðar en 3 dögum fyrir fund. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

  1.  Stjórn skipa 5 menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Þeir skulu kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn, þannig að annað árið er kosinn formaður og tveir stjórnarmanna, en hitt árið tveir stjórnarmenn. Formaður er kosinn sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum. Kosningar skulu bundnar við uppástungur. Stjórnarmann má ekki endurkjósa nema tvisvar í röð. Varastjórn skipa 3 menn og eru kjörnir til eins árs í senn. Varamenn má endurkjósa tvisvar í röð. Á aðalfundi skal kjósa 2 endurskoðendur til eins árs.
  2. Stjórn félagsins er heimilt að skipa hússtjórn fyrir félagsheimilið Freyvang. Hússtjórn mun fara með málefni hússins í umboði stjórnar á meðan rekstur þess er á ábyrgð félagsins.
  3.  Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og séu 2/3 hlutar fundarmanna samþykkir breytingunni. Lagabreytingartillagna skal getið í fundarboði.
  4.  Lög þessi öðlast gildi þegar aðalfundur hefur samþykkt þau, jafnframt eru eldri lög og lagabreytingar úr gildi fallin.

Þannig samþykkt á aðalfundi Freyvangsleikhússins þann 1. september 2007. Breytingar samþykktar á aðalfundi 9. september 2011. Breytingar samþykktar á aðalfundi 13. september 2022.

Verklagsreglur Freyvangsleikhússins um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi í leiklistarstarfi.

 

1.gr.

Markmið

Í leiklistarstarfi ber að hafa jafnræði og virðingu að leiðarljósi í samskiptum einstaklinga.

Kynbundin og kynferðisleg áreitni eða ofbeldi (brot) er með öllu óheimilt í starfi á vegum Freyvangsleikhússins. Brot eru hvorki liðin í samskiptum starfsfólks og stjórnenda innbyrðis, samskiptum þeirra við þátttakendur né í samskiptum þátttakenda í leiklistarstarfi innbyrðis.

Markmið með verklagsreglum þessum er að stuðla að því að úrræði séu til staðar telji einhver sig hafa orðið fyrir slíkum brotum.

 

  1. gr.

Orðskýringar

Með kynbundinni áreitni eða ofbeldi er átt við hegðun sem tengist kyni þess einstaklings sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar eða niðurlægjandi eða valda líkamlegum eða sálrænum skaða.

Með kynferðislegri áreitni eða ofbeldi er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess einstaklings sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra eða niðurlægjandi aðstæðna, svo og þegar hegðunin felur í sér brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga.

Með hugtakinu starfsfólk og stjórnendur er átt við öll þau sem starfa á vegum Freyvangsleikhússins, hvort sem þau eru skipuð til starfs, eru í beinu ráðningarsambandi eða eru verktakar.

Með hugtakinu þátttakendur er átt við öll þau sem taka þátt í starfi á vegum Freyvangsleikhússins, t.d. þátttakendur á fundum, námskeiðum, skemmtunum og í einstaka leiksýningum.

 

  1. gr.

Viðbrögð Freyvangsleikhússins

Almennt leitast Freyvangsleikhúsið við að beita forvörnum og fræðslu til að koma í veg fyrir brot í starfsemi sinni.

Hver sá einstaklingur sem vill bera fram kvörtun vegna brots sem viðkomandi telur sig verða eða hafa orðið fyrir í starfsemi á vegum Freyvangsleikhússins getur snúið sér til stjórnarmanna Freyvangsleikhússins. Hið sama á við ef einstaklingur telur alvarlega hættu á að brot verði framið í leiklistarstarfi á vegum Freyvangsleikhússins, t.d. vegna upplýsinga um önnur alvarleg brot þess sem tekur þátt í umræddri starfsemi.

Stjórnarmenn taka við og kanna kvartanir vegna brots. Þau geta leitað til einstaklings sem hefur fagþekkingu og reynslu af meðferð mála af þessu tagi ef þörf krefur. Kanna skal málið eftir því sem unnt er, meðal annars með því að afla gagna, ræða við þá sem hlut eiga að máli og eftir atvikum aðra sem varpað geta ljósi á málið. Óski viðkomandi eftir að kæra mál til lögreglu skal veita aðstoð við það eftir föngum svo og að leiðbeina brotaþola um að leita sér faglegrar aðstoðar eftir því sem við á. Ef brot beinist gegn barni ber tafarlaust að tilkynna það til barnaverndaryfirvalda í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga.

Þegar mál hefur verið kannað eins og unnt er taka stjórnarmenn sameiginlega ákvörðun um hvort og þá hvaða úrræða réttast er að grípa til. Reyna skal að ná sátt um niðurstöður eftir því sem við. Úrræði miðast að öðru leyti við þær upplýsingar sem fyrir liggja, alvarleika málsatvika og aðstæður að öðru leyti.

Meðal úrræða er heimild til að útiloka einstakling frá starfsemi á vegum Freyvangsleikhússins að öllu leyti, eða frá tiltekinni starfsemi, ef talið er að þátttaka viðkomandi, með hliðsjón af eðli og alvarleika brots, ógni heilsu eða öryggi brotaþola eða heilsu eða öryggi annarra. Ef brot er ekki talið ógna heilsu eða öryggi annarra er heimilt að bjóða brotaþola forgang að tilteknum þáttum starfseminnar, svo sem að sækja fundi og námskeið, og útiloka þann sem kvörtun beinist að frá þeim viðburðum sem brotaþoli velur að sækja hverju sinni.

Öllum þeim sem að málum koma er skylt að gæta þagmælsku um þau mál sem unnið er með og rík áhersla er lögð á vernd og öryggi persónuupplýsinga, í samræmi við gildandi lög og reglur um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

  

  1. gr.

Gildistaka

Verklagsreglur þessar öðlast gildi við staðfestingu á aðalfundi Freyvangsleikhússins.

Samþykkt á aðalfundi 13.september 2022.