Þorskur á þurru landi er farsi frá árinu 2005, skrifaður af þeim Karl Tiedemann og Allen Lewis Rickman sem heitir Off the Hook á frummálinu.
Verkið gerist á mæðradaginn árið 1958.
Sir Evelyn Carstairs, breski sendiherrann við Sameinuðu þjóðirnar, hefur eytt kvöldinu áður í að þjóra með Dag Hammarskjöld, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, á kránni Bælda Bælið í New Jersey. Þar kynnist hann hinni fögru Angie Puglese og endar á að skutla henni heim á bíl sem hann hafði fengið lánaðan hjá kokkinum sínum.
En gamanið kárnar þegar Bill Puglese, afbrýðisamur eiginmaður Angie og þekktur glæpaforingi, birtist í sendiráðinu eftir að hafa rakið bílnúmerið til kokks sendiherrans.
Þennan sama dag kemur íslenskur sendiráðunautur í sendiráðið til að hefja samningaumræður varðandi íslensku landhelgina.
Í framhaldinu upphefjast mikil ærsl og misskilningur sem m.a. veita nýja sýn á upphaf Þorskastríðsins 1958 – 1961.
Frumsýning verður fimmtudaginn 20. febrúar kl. 20:00
Miðaverði er stillt í hóf og er miðinn á aðeins 2.800 kr.
Hægt er að panta miða í síma 857-5598 alla daga á milli kl. 17-19, hér á heimasíðunni og í gegnum skilaboð á Facebook síðu okkar.