Líklega kannast flestir við hann Bangsímon, ásamt ýmsum félögum hans í Hundraðekruskógi.
Bangsinn Bangsímon kom fyrst fram í myndasögu eftir A.A.Milne í Evening News í London árið 1924 og hét hann þá reyndar Edward Bear. Árið 1926 kom svo út bók með teikningum eftir E. H. Shepard. Bókin innihélt 10 sögur af Bangsimon og félögum hans, Gríslingi, Eyrnaslapa. Kaningu, Uglunni og fleirum.
A.A Milne byggði þessar persónur á leikföngum sonar síns, Christopher Robin Milne, þannig að sögurnar og persónurnar eru upprunnar úr hugarheimi barns og höfðuðu því vel til barna og gera enn.

Teiknarinn E. H. Shepard byggði hins vegar upprunalegt útlit Bangsímons á bangsa sonar síns, síðar voru gerðar útlitsbreytingar á honum og hann fékk hina einkennandi rauðu peysu árið 1932, þegar hann birtist fyrst í lit.
Um verkið.
Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit er frumsamið verk eftir Jóhönnu S. Ingólfsdóttur.
Verkið byggir á þeim ástsælu Bangsímon og Gríslingi eftir A.A.Milne, sem Disney gerðu síðar ódauðlega, og blandast saman við klassískar Íslenskar verur sem allir þekkja.
Bangsímon og Gríslingur eru komnir alla leið til Íslands til þess að finna Íslensku jólasveinana, þeir höfðu frétt af því að á Íslandi væru hvorki meira né minna en 13 jólasveinar.
Þegar sagan hefst þá eru þeir staddir í kofa á Íslandi og ætla að leggja af stað upp á fjall til þess að vita hvort þeir geti ekki fengið að hitta jólasveinana.
Ferðin gengur upp og ofan hjá þeim, en þeir hitta hinar ýmsu verur á leiðinni, eins og við er að búast upp á Íslenskum fjöllum.
Þeir halda þó ótrauðir áfram og reyna eftir fremsta megni að halda í trúnna á að þeim takist ætlunarverk sitt og með óbilandi trú á sjálfa sig sem og á hvorn annan.
Tónlistin er samin af Eiríki Bóassyni sérstaklega fyrir sýninguna og er hún létt og skemmtileg með bæði frumsömdum textum sem og vísum frá Jóhannesi úr Kötlum.
Leikstjórn er í höndum Jóhönnu S. Ingólfsdóttur en er þetta í annað sinn sem hún leikstýrir stuttu barnaverki hjá Freyvangsleikhúsinu en hún leikstýrði einnig Karíus og Baktus fyrir jólin í fyrra.
Verkið er einungis rúmur klukkutími að lengd, með hléi, og er því tilvalið fyrir yngstu kynslóðina.
