Gleðifréttir úr Kardemommubænum

Það er Freyvangsleikhúsinu mikið gleðiefni að tilkynna að styrktarsýningin þann 26.mars sl. skilaði kr.400.000.- sem búið er að afhenda fjölskyldunni. Félagið óskar þeim velfarnaðar í baráttunni og þakkar þeim fjölmörgu sem sóttu sýninguna eða styrktu með framlögum.

Frábær frumsýning á Kardemommubænum.

Kardemommubærinn var frumsýndur fyrir fullu húsi í gærkvöldi og við frábærar undirtektir. Óhætt er að segja að allir hafi farið af sýningunni með bros á vör og gleði í hjarta. það selst hratt á næstu sýningar svo gott er að tryggja sèr miða í tíma.
Hlökkum til að sjá ykkur.

Kardemommubærinn

Loksins er allt að verða klárt í Kardemommubænum í Freyvangi og opnast bæjarhliðið föstudaginn 4. mars þegar öllu verður tjaldað til á frumsýningardegi. Æfingatímabilið hefur einkennst af skini og skúrum þar sem blessuð veiran hefur leikið suma bæjarbúa og ættingja þeirra grátt og ýmsar tafir orðið af þeim sökum. En með einstökum samtakamætti hefur tekist að skapa glæsilega sýningu og eru allir spenntir að fá gesti í heimsókn. Hlökkum til að sjá ykkur og góða skemmtun.

Örlítið um Kardemommubæinn

Næsta sýning Freyvangsleikhússins er Kardemommubærinn eftir Thorbjørn Egner. Kardemommubæinn þarf vart að kynna fyrir Íslendingum enda hafa líklega flestir, sem komnir eru til vits og ára, séð hann á einhverjum tímapunkti.

Verkið er upprunulega skrifað fyrir barnatíma í norska ríkisútvarpinu og var flutt þar í nokkrum þáttum. Árið 1955 kom sagan svo út á bók með teikningum eftir Egner sjálfan. Þar má sjá útlit bæjarins og persónanna, útlit sem hefur verið haldið í flestum uppfærslum leikritsins síðan. Umhverfi bæjarins hjá Egner er svolítið suðrænt og tímalaust og sótti hann að eigin sögn innblástur til Ítalíu og Tyrklands

Ræningjarnir þrír, kasper, Jesper og Jónatan

Leikritið var fyrst sett upp 1956 og bíómynd kom út 1988.

Tónlistin í verkinu er öll eftir Egner sjálfan, fyrir utan eitt lag, söng Sørensen rakara sem er eftir Bjarne Amdahl.

Fullur titill verksins er í raun „Fólk og ræningjar í Kardimommubæ“ (no: Folk og røvere i Kardemomme by) enda eru ræningjarnir þrír, Kasper, Jesper og Jónatan mjög áberandi. Þeir vaða uppi og ræna í bænum meðan Bastían bæjarfógeti þorir lítið að gera í málunum þar sem ræningjarnir eiga ljón og ekki vill bæjarfógetinn verða ljónamatur.

Aðrar eftirminnilegar persónur eru t.d. Soffía frænka, sem er frænka Kamillu litlu sem býr hjá henni, en er gjarnan kölluð frænka af öllum öðrum líka. Hún er mikill kvenskörungur og heldur upp aga í bænum.

Soffía frænka segir ræningjunum fyrir verkum

Bastían bæjarfógeti, lögreglustjóri bæjarins. Hann er góðmenni inn að beini og vill öllum vel, sumir myndu líka segja að hann væri hálfgerð gunga, enda er hann hálf hræddur við Soffíu Frænku og skíthæddur við ræningjana og þá sérstaklega við ljónið sem þeir eiga

Tobías í turninum. Hann býr í turni í miðjum bænum og notar hann til að gá til veðurs og spá fyrir um veðrið. Hann er einnig elsti og vitrasti íbúi Kardemommubæjar.

Tommi, Kamilla, Asninn Pontíus, Soffía Frænka og Tobías á leið á Kardemommuhátíðina.

Sjáumst svo öll í Freyvangi í vor.

Smán

Hèrna kemur smá sýnishorn af því sem er í vændum í Freyvangsleikhúsinu.

Frumsýning 22.október, sýnum föstudaga og laugardaga kl.20.

Nánari upplýsingar um næstu sýningar og miðasala á tix.is og í síma 857-5598

Smán í Freyvangsleikhúsinu

Nýtt íslenskt leikverk eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttir í leikstjórn Sindra Swan.

Smán gerist á ónefndum bar á Norðurlandi rétt upp úr aldamótunum 2000. Verkið fjallar um 6 ólíka einstaklinga, sem við fáum að fylgjast með yfir langa helgi, þar sem líf þeirra fléttast saman á kaffihúsi/bar. Einnig eru þó nokkrir aukakarektarar sem gæða staðinn lífi hver á sinn hátt. 

Miðapantanir á tix.is og í síma 857-5598