Frábær frumsýning á Kardemommubænum.

Kardemommubærinn var frumsýndur fyrir fullu húsi í gærkvöldi og við frábærar undirtektir. Óhætt er að segja að allir hafi farið af sýningunni með bros á vör og gleði í hjarta. það selst hratt á næstu sýningar svo gott er að tryggja sèr miða í tíma.
Hlökkum til að sjá ykkur.

Kardemommubærinn

Loksins er allt að verða klárt í Kardemommubænum í Freyvangi og opnast bæjarhliðið föstudaginn 4. mars þegar öllu verður tjaldað til á frumsýningardegi. Æfingatímabilið hefur einkennst af skini og skúrum þar sem blessuð veiran hefur leikið suma bæjarbúa og ættingja þeirra grátt og ýmsar tafir orðið af þeim sökum. En með einstökum samtakamætti hefur tekist að skapa glæsilega sýningu og eru allir spenntir að fá gesti í heimsókn. Hlökkum til að sjá ykkur og góða skemmtun.

Örlítið um Kardemommubæinn

Næsta sýning Freyvangsleikhússins er Kardemommubærinn eftir Thorbjørn Egner. Kardemommubæinn þarf vart að kynna fyrir Íslendingum enda hafa líklega flestir, sem komnir eru til vits og ára, séð hann á einhverjum tímapunkti.

Verkið er upprunulega skrifað fyrir barnatíma í norska ríkisútvarpinu og var flutt þar í nokkrum þáttum. Árið 1955 kom sagan svo út á bók með teikningum eftir Egner sjálfan. Þar má sjá útlit bæjarins og persónanna, útlit sem hefur verið haldið í flestum uppfærslum leikritsins síðan. Umhverfi bæjarins hjá Egner er svolítið suðrænt og tímalaust og sótti hann að eigin sögn innblástur til Ítalíu og Tyrklands

Ræningjarnir þrír, kasper, Jesper og Jónatan

Leikritið var fyrst sett upp 1956 og bíómynd kom út 1988.

Tónlistin í verkinu er öll eftir Egner sjálfan, fyrir utan eitt lag, söng Sørensen rakara sem er eftir Bjarne Amdahl.

Fullur titill verksins er í raun „Fólk og ræningjar í Kardimommubæ“ (no: Folk og røvere i Kardemomme by) enda eru ræningjarnir þrír, Kasper, Jesper og Jónatan mjög áberandi. Þeir vaða uppi og ræna í bænum meðan Bastían bæjarfógeti þorir lítið að gera í málunum þar sem ræningjarnir eiga ljón og ekki vill bæjarfógetinn verða ljónamatur.

Aðrar eftirminnilegar persónur eru t.d. Soffía frænka, sem er frænka Kamillu litlu sem býr hjá henni, en er gjarnan kölluð frænka af öllum öðrum líka. Hún er mikill kvenskörungur og heldur upp aga í bænum.

Soffía frænka segir ræningjunum fyrir verkum

Bastían bæjarfógeti, lögreglustjóri bæjarins. Hann er góðmenni inn að beini og vill öllum vel, sumir myndu líka segja að hann væri hálfgerð gunga, enda er hann hálf hræddur við Soffíu Frænku og skíthæddur við ræningjana og þá sérstaklega við ljónið sem þeir eiga

Tobías í turninum. Hann býr í turni í miðjum bænum og notar hann til að gá til veðurs og spá fyrir um veðrið. Hann er einnig elsti og vitrasti íbúi Kardemommubæjar.

Tommi, Kamilla, Asninn Pontíus, Soffía Frænka og Tobías á leið á Kardemommuhátíðina.

Sjáumst svo öll í Freyvangi í vor.

Smán

Hèrna kemur smá sýnishorn af því sem er í vændum í Freyvangsleikhúsinu.

Frumsýning 22.október, sýnum föstudaga og laugardaga kl.20.

Nánari upplýsingar um næstu sýningar og miðasala á tix.is og í síma 857-5598

Smán í Freyvangsleikhúsinu

Nýtt íslenskt leikverk eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttir í leikstjórn Sindra Swan.

Smán gerist á ónefndum bar á Norðurlandi rétt upp úr aldamótunum 2000. Verkið fjallar um 6 ólíka einstaklinga, sem við fáum að fylgjast með yfir langa helgi, þar sem líf þeirra fléttast saman á kaffihúsi/bar. Einnig eru þó nokkrir aukakarektarar sem gæða staðinn lífi hver á sinn hátt. 

Miðapantanir á tix.is og í síma 857-5598

Dagbók Önnu Frank; Hertar sóttvarnaraðgerðir

Kæru vinir og félaga.

Í ljósi aðstæðna þurfum við að loka dyrum Freyvangsleikhússins til að koma til móts við hertar aðgerðir í sóttvarnaraðgerðum. Fyrir vikið fellum við niður fyrirhugaðar sýningar á leikritinu Dagbók Önnu Frank sem átti að fara aftur í sýningu hjá okkur komandi helgi.

Við frumsýndum Dagbók Önnu Frank fyrir rúmlega ári síðan við mjög góðar viðtökur, en þurftum að fella niður sýningar þá vegna sóttvarnaraðgerða og eins síðastliðið haust þegar við ætluðum að hefja sýningar að nýju. Þetta er þess vegna í þriðja skiptið sem við þurfum að hætta við sýningar á verkinu.

Vinna í áhugaleikhúsi er sjálfboðaliðastarf og það eru margar hendur sem koma að sýningum líkt og Dagbók Önnu Frank, hvort sem það er á sviði, bak við tjöldin eða uppi í tækjabrú. Ef síðasta árið hefur kennt okkur eitthvað þá er það einmitt það hversu öflugan hóp af fólki við höfum í för með okkur. Því það er hvergi sjálfgefið að binda sig við slíka sýningu misseri á eftir misseri. Við erum því ótrúlega þakklát hópnum okkar sem hefur alltaf verið til í slaginn, tilbúin til að halda áfram, reyna aftur og gefa af sér dýrmætan tíma og vinnu til að leggja okkur lið.

Að því sögðu, þá sjáum við okkur því miður ekki fært að ætla okkur nýtt sýningartímabil á Dagbók Önnu Frank að svo stöddu.

Allir keyptir miðar verða endurgreiddir að fullu í gegnum Tix.is. Í ljósi aðstæðna má reikna með talsverðu álagi hjá Tix, svo það getur tekið einhverja daga fyrir þá að sinna endurgreiðslum. Við viljum því biðja viðskiptavini okkar um að sýna þolinmæði og biðlund gagnvart þeim.

Munum kurteisisbilið, virðum sóttvarnir og sýnum aðgát.

Hittumst heil!

Dagbók Önnu Frank snýr aftur!

Við hjá Freyvangsleikhúsinu erum ekki tilbúin til að kveðja sýninguna okkar um Önnu Frank og sambýlinga hennar á leynilega háaloftinu.

Þessi leikgerð var frumsýnd á fjölum Freyvangsleikhússins fyrir um ári síðan, við alveg hreint frábærar viðtökur, en um er að ræða nýja þýðingu sem hafði aldrei áður verið sýnd á Íslandi áður.

Leikritið segir frá þeim tveim árum sem Anna Frank, 13 ára hollensk gyðingastúlka, dvaldist í felum undan nasistum á hrörlegu háalofti í vöruskemmu í Amsterdam, ásamt foreldrum sínum, systur og fjórum öðrum gyðingum. Þennan tíma heldur Anna dagbók sem hún trúir fyrir tilfinningum sínum og því hvernig hún upplifir þennan tíma þar sem skiptast á skin og skúrir.

Við munum að sjálfsögðu fara eftir settum takmörkunum hvað varðar samkomur og sóttvarnir.

Gildandi takmarkanir í samkomubanni hljóða svo:

„‍Sviðslistir, bíósýningar og aðrir menningarviðburðir hafa heimild að hafa allt að 50 manns á sviði, þ.e. á æfingum og sýningum.  Heimilt er að taka á móti allt að 200 sitjandi gestum í bókuð sæti með 1 metra nálægðarmörkum og gestum skylt að nota andlitsgrímu, börn fædd 2005 og síðar teljast ekki með framangreindum fjölda gesta. Hlé er leyfilegt en áfengissala er óheimil.“

Covid.is

Þess vegna erum við með takmarkaðan miðafjölda í boði fyrir hverja sýningu ásamt því að vera með númeruð sæti. Miðasala raðar gestum í sæti eftir pöntunum í samræmi við nálægðartakmarkanir. Ekki er hægt að panta ákveðin sæti fyrirfram nema í einstaka tilvikum ef um einstaklinga með hreyfihamlanir eða hjálparbúnað er að ræða, sbr. einstaklingar sem notast við hjólastól, hækjur, göngugrind o.þ.h. Vinsamlegast látið miðasölu vita tímanlega svo hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir.

Öllum gestum sem og starfsfólki er skylt að vera með andlistgrímu. Gestir mæta með eigin grímu ef kostur gefst, en ef ekki þá verða grímur skaffaðar á staðnum.

Munum kurteisisbilið, virðum sóttvarnir og sýnum aðgát.

Miðasala fer fram í síma 857-5598 og á Tix.is