Jólakötturinn

Jólakötturinn er frumsamið hugljúft jólaævintýri eftir Jóhönnu S. Ingólfsdóttur. Höfundur byggir söguna á hinum alíslenska jólaketti eins og flestir þekkja hann, en blandar svo inní allskyns sögupersónum sem flestir kannast líka við.

Þegar jólakötturinn fær nóg af því að allir í kringum hann eru alltaf góðir, glaðir og að öllum finnist jólin frábær, ákveður hann að fara að heiman þar sem það er enginn lengur eins og hann.

Hann fer af stað fúll og önugur en á leið sinni upp á fjallið þá hittir hann ýmsar furðuverur sem eru fæstar eins og hann því eins og allir vita þá finnst flestum jólin frábær.

Það að vera frábrugðin öðrum og finnast maður ekki passa inn í getur verið flókið, en með vináttu, væntumþykju og kannski smá kurteisi er möguleiki á að finna sinn stað í tilverunni.

Tónlistin í verkinu er létt og skemmtileg og er hún frumsamin fyrir verkið af Eiríki Bóassyni og er þetta þriðja jólabarnaleikritið sem hann semur tónlistina í hjá Freyvangsleikhúsinu.

Leikstjóri er Jóhanna S. Ingólfsdóttir

Sýningin er einungis rúmur klukkutími að lengd með hléi, svo hún hentar frábærlega fyrir yngstu kynslóðina.

Land míns Föður

28. febrúar næstkomandi frumsýnir Freyvangsleikhúsið söngleikinn Land Míns Föður eftir Kjartan Ragnarsson með tónlist eftir Atla Heimi Sveinsson.

Land míns föður er söngleikur um stríðsárin í Reykjavík, hernámið og það sem því fylgdi.
Hvaða áhrif hafði hernámið á íslendinga, einstaklinga og þjóðlífið í heild? Athyglin beinist að unga parinu Báru og Sæla og fólkinu í kringum þau. Þau eru að hefja búskap þegar stríðið skellur á. Sæli kýs að fara frekar á sjóinn en í bretavinnuna, en Bára og móðir hennar opna þvottahús sem þjónar hernum. Bára kynnist breskum liðsforingja og í fjarveru Sæla fella þau hugi saman. Ýmislegt gengur á áður en yfir lýkur og hlökkum við til að ferðast með ykkur aftur í tímann.

Höfundurinn

Kjartan Ragnarsson er fæddur 18. september 1945 í Reykjavík. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur árið 1966 og var síðan í framhaldsnámi í leiklist í Póllandi 1969 til 1970. Kjartan var leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur frá 1966 um langt árabil. Hann hefur einnig leikstýrt mikið hjá Þjóðleikhúsinu og Nemendaleikhúsinu.

Kjartan er öflugur leikritahöfundur og hefur hann leikstýrt flestum verkum sínum sjálfur. Meðal leikrita eftir Kjartan má nefna Saumastofuna (1975), Blessað barnalán (1977) og Týndu teskeiðina (1977). Kjartan samdi meðal annars leikritin Peysufatadaginn (1981) og Dampskipið Ísland (1991) fyrir Nemendaleikhúsið.

Kjartan hefur gert fjölmargar leikgerðir eftir bókum, s.s. Ofvitann eftir Þórberg Þórðarson, Ljós heimsins og Höll Sumarlandsins eftir Halldór Laxness, Djöflaeyjuna eftir Einar Kárason og fleiri.

Tónskáldið

Atli Heimir Sveinsson (21. september 1938 – 2019) er líklega eitt af þekktari tónskáldum Íslands. Hann fékk Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 1976 fyrir „Konsert fyrir flautu og hljómsveit” sem hann samdi fyrir kanadiska flautuleikarann Robert Aitken.


Atli Heimir samdi mikið af leikhústónlist, óperum, ballettum og svokallaðri nútímatónlist. Eftir hann liggja meðal annars tíu einleikskonsertar, sex sinfóníur, fimm óperur.

Fjórtándi jólasveininn

Fjórtándi jólasveinninn er frumsamið jólaverk eftir Ásgeir Ólafsson Lie sem segir sögu af hinum hefðbundnu jólasveinunum 13 sem og Grýlu, Leppalúða og jólakettinum. Nema í þessu leikverki eru jólasveinarnir ekki bara þrettán heldur er þarna sá fjórtándi sem enginn átti von á.

Þetta jólaævintýri er hugljúf jólasaga sem segir söguna af barni sem kemur óvænt í heiminn og var í raun ekki gert ráð fyrir. Ólátabelgur er frábrugðin öðrum í fjölskyldunni og hefur hvorki hlutverk né tilgang innan fjölskyldunnar.

Það að vera öðruvísi en allir í kringum sig og falla ekki inn í hópinn getur verið erfitt, því þarf Ólátabelgur að hafa fyrir því að finna sinn stað innan fjölskyldunnar.

Tónlistin létt og skemmtileg og er samin af Eiríki Bóassyni sérstaklega fyrir verkið. Söngtextarnir mjög frumlegir og eru samdir af Helga Þórssyni.

Leikstjóri er Jóhanna S. Ingólfsdóttir.

Sýningin er einungis rúmur klukkutími að lengd með hléi, svo hún hentar frábærlega fyrir yngstu kynslóðina.

Aðalfundur Freyvangsleikhússins 2024


Fimtudaginn 12.september kl:20

Dagskrá:
Almenn aðalfundarstörf
Stjórnar kostning
Önnur mál

Þar sem Freyvangsleikhúsið skrifaði undir nýjann samning um reksturinn á húsinu við Eyjarfjarðarsveit í vor, þá eru spennandi tímar frammundan hjá leikfélaginu. Förum við yfir síðastliðið ár sem og komandi ár.
Hvetjum við gamla sem og nýja félaga til að mæta og taka þátt í uppbyggingu Freyvangsleikhússins með okkur og fylgjast með því frábæra félagsstarfi sem er.
Heitt á könnunni og góður félagsskapur.

Nýr samningur við Eyjafjarðarsveit undirritaður

Laugardagskvöldið 23.mars 2024 skrifaði Freyvangsleikhúsið undir rekstrarsamning við Eyjafjarðarsveit um afnot af húsinu Freyvangi.

Það að hafa öruggt húsnæði er gríðarlega mikilvægt fyrir starfsemi áhugaleikfélags.

Eins og nafn leikfélagsins gefur til kynna er Freyvangsleikhúsið samtvinnað húsinu Freyvangi í Eyjafjarðarsveit.

Haustið 2021 stóð til að Eyjafjarðarsveit myndi selja félagsheimilið Freyvang en rekstrarsamningur var svo gerður 1.maí 2022 milli leikfélagssins og Eyjarfjarðarsveitar, til tveggja ára, þess efnis að Freyvangsleikhúsið fengi afnot af húsinu Freyvangi gegn því að greiða af húsinu öll rekstrargjöld.

Jóhanna s. Ingólfsdóttir, formaður Freyvangsleikhússins og Finnur Yngvi Kristinsson sveitastjóri Eyjfjarðarsveitar

Voru þetta tímamót hjá leikfélaginu þar sem fyrir vikið tók leikfélagið við allri starfsemi hússins. Fyrir samninginn þá var leikfélagið einungis með húsið yfir veturinn og greiddi sveitarfélaginu leigu sem var hlutfallsleg prósenta af innkomu sýninga.

Eftir undirskrift samningsins þá tók leikfélagið við húsinu allt árið um kring og sinnir því líka útleigu á húsinu yfir sumartímann, sem og tók leikfélagið við íbúðinni sem er á efri hæð hússins.

Síðustu tvö ár hafa því verið með aðeins öðru sniði hjá leikfélaginu, þar sem leikfélagið þarf nú að passa að það sé til fjármagn til að reka húsið, án þess að það komi niður á áhuga leiklistarstarfinu.

Hefur því leikfélagið verið með útleiguna á húsinu sem og hina ýmsu viðburði t.d. ball, bingó, bíósýningar, stuttverkaskemmtun og síðustu tvö ár aðventusýningar, sem og hafa hollvinir Freyvangsleikhússins staðið fyrir tónleikum fyrsta vetrardag. Þessir viðburðir hafa gert það að verkum að leikfélagið heldur fullum krafti og setur áfram upp stórar sýningar á hverjum vetri.

Jóhanna og Finnur ásamt leikurum í Gaukshreiðrinu

Nú eru enn tímamót hjá Freyvangsleikhúsinu þar sem nýr samningur var gerður við Eyjafjarðarsveit, er hann að mestu leyti endurnýjun á þeim sem var gerður fyrir tveim árum síðan, nema með þeirri uppfærslu að hann er ótímabundinn.

Fögnum við þessum tímamótum hjá Freyvangsleikhúsinu þar sem menningarstarfsemi í Eyjafjarðarsveit hefur tryggann stað um ókomna tíð.

Jóhanna S. Ingólfsdóttir formaður Freyvangsleikhússins 

Gaukshreiðrið í Freyvangsleikhúsinu.

Freyvangsleikhúsið hefur hafið æfingar á leikverkinu Gaukhreiðrið eftir samnefndri bók Ken Kensey og leikgerð Dale Wasserman í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar. Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson.  

Leikverkið segir sögu indíanahöfðingjans Bromden sem hefur verið lengi á geðsjúkrahúsi í Bandaríkjunum. Bromden segir frá komu R.P. McMurphy á deildina og hvaða áhrif hann hafði á sjúklinga og starfsfólk hælisins. McMurphy hafði séð sér leik á borði og leikið sig geðveikan til þess að losna við fangelsisvist. Hann lendir þar í útistöðum við frú Ratchet forstöðukonu hælisins sem stjórnar hælinu vægast sagt með harðri hendi.  

Verkið lýsir á beinskeittan hátt aðstæðum og þann uppreisnaanda sem ríkti í Bandaríkjunum og víðar á 7. áratug síðustu aldar sem og þeirra meðferð sem geðsjúkir bjuggu við og hvernig litið var á geðsjúkdóma á þessum tímum.  

Gaukshreiðrið er hrollvekjandi ádeila á kerfið og þeim meðferðum sem beitt var en lýsir á sama tíma einstöku sambandi sjúklinganna og hvernig þeir glíma við harðræði og niðurlægingu yfirvaldsins. Leikverkið inniheldur í senn sorg, gleði, hrylling og illsku svo verið tilbúin í að taka á öllum ykkar tilfinningaskala.

Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit

Líklega kannast flestir við hann Bangsímon, ásamt ýmsum félögum hans í Hundraðekruskógi.
Bangsinn Bangsímon kom fyrst fram í myndasögu eftir A.A.Milne í Evening News í London árið 1924 og hét hann þá reyndar Edward Bear. Árið 1926 kom svo út bók með teikningum eftir E. H. Shepard. Bókin innihélt 10 sögur af Bangsimon og félögum hans, Gríslingi, Eyrnaslapa. Kaningu, Uglunni og fleirum.

A.A Milne byggði þessar persónur á leikföngum sonar síns,  Christopher Robin Milne, þannig að sögurnar og persónurnar eru upprunnar úr hugarheimi barns og höfðuðu því vel til barna og gera enn.

Upprunalegu leikföngin sem sögurnar eru skrifaðar um eru nú á safni

Teiknarinn E. H. Shepard byggði hins vegar upprunalegt útlit Bangsímons á bangsa sonar síns, síðar voru gerðar útlitsbreytingar á honum og hann fékk hina einkennandi rauðu peysu árið 1932, þegar hann birtist fyrst í lit.

Um verkið.

Bangsímon og Gríslingur í jólasveinaleit er frumsamið verk eftir Jóhönnu S. Ingólfsdóttur.

Verkið byggir á þeim ástsælu Bangsímon og Gríslingi eftir A.A.Milne, sem Disney gerðu síðar ódauðlega, og blandast saman við klassískar Íslenskar verur sem allir þekkja.

Bangsímon og Gríslingur eru komnir alla leið til Íslands til þess að finna Íslensku jólasveinana, þeir höfðu frétt af því að á Íslandi væru hvorki meira né minna en 13 jólasveinar. 

Þegar sagan hefst þá eru þeir staddir í kofa á Íslandi og ætla að leggja af stað upp á fjall til þess að vita hvort þeir geti ekki fengið að hitta jólasveinana.

Ferðin gengur upp og ofan hjá þeim, en þeir hitta hinar ýmsu verur á leiðinni, eins og við er að búast upp á Íslenskum fjöllum.

Þeir halda þó ótrauðir áfram og reyna eftir fremsta megni að halda í trúnna á að þeim takist ætlunarverk sitt og með óbilandi trú á sjálfa sig sem og á hvorn annan.

Tónlistin er samin af Eiríki Bóassyni sérstaklega fyrir sýninguna og er hún létt og skemmtileg með bæði frumsömdum textum sem og vísum frá Jóhannesi úr Kötlum.

Leikstjórn er í höndum Jóhönnu S. Ingólfsdóttur en er þetta í annað sinn sem hún leikstýrir stuttu barnaverki hjá Freyvangsleikhúsinu en hún leikstýrði einnig Karíus og Baktus fyrir jólin í fyrra.

Verkið er einungis rúmur klukkutími að lengd, með hléi, og er því tilvalið fyrir yngstu kynslóðina.