Þýðing Dagbók Önnu Frank – Ingunn Snædal

Eins og glöggir lesendur okkar vita þá er leikritið Dagbók Önnu Frank í sýningu á fjölum Frevangsleikhússins þessa dagana. Dagbókin var fyrst gefin út árið 1947 og fór sigurför um heiminn. Kom svo fyrsta leikgerðin eftir Albert Hackett og Frances Goodrich út skömmu á eftir og hefur verið sýnd um allan heim.

Á tíunda áratugnum var Dagbókin sjálf endurútgefin, um þrjátíu prósentum lengri en hún var í upphaflegu útgáfunni, en upphaflegu úgáfunni var ritstýrt var af Ottó Frank og útgefendum bókarinnar. Efnið sem upphaflega fékk ekki að vera með í útgáfu dagbókarinnar snerist fyrst og fremst um uppgötvun Önnu á sjálfri sér sem kynveru og um neikvæðar tilfinningar hennar í garð móður sinnar. Útgáfa þessara nýju kafla varð til þess að tími var til kominn að uppfæra leikgerðina og var leikskáldið Wendy Kesselman fengin til að uppfæra leikgerð Hackett og Goodrich og var tilnefnd til Tony-verðlaunanna fyrir verkið.

Þegar ákveðið var að Freyvangsleikhúsið myndi setja upp Dagbók Önnu Frank undir leikstjórn Sigurðar Líndal voru allir á sama máli um að koma þessum nýju köflum að. Til þess þurfti að þýða uppfærslu Wendy Kesselman og var Ingunn Snædal fengin í verkið sem leysti verkefnið, að okkar mati, snilldarlega.

Ingunn skrifar:

Það er næstum því yfirþyrmandi að vera beðin um að skrifa nokkur orð um þýðinguna á þessu leikriti, þessa sögu sem öll heimsbyggðin þekkir. Hvað get ég mögulega sagt um Dagbók Önnu Frank sem hefur ekki verið sagt áður?

Að mínu viti var löngu tímabært að þýða þessa endurskoðuðu útgáfu Wendy Kesselman af leikritinu. Í henni er reynt að takast á við málefni úr bókinni sem þóttu of viðkvæm eða óviðeigandi þegar leikritið var upprunalega samið. Við þýðingarvinnuna las ég fyrri útgáfuna með það fyrir augum hvort hægt væri að nota hana og gera aðeins breytingar til samræmis við endurskoðuðu útgáfuna. Ég sá fljótt að það var útilokað. Eiginlega finnst mér þetta leikrit vera meira en endurskoðuð útgáfa; þetta er eins og nýtt leikrit. Það er í sjálfu sér ekki skrítið að í leikritinu sem samið var upp úr 1950, skömmu eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk, væri aðaláherslan lögð á hið göfuga í manninum og sigur mannsandans yfir hinu illa, en það var alls ekki aðalstef dagbókarinnar. Anna í nýju útgáfunni á meira skylt við þá sem birtist í bókinni; hún er fyndin og háðsk, greind og gagnrýnin en líka uppátækjasöm, ráðvillt, hormónasjúk og sveiflast í skapi. Eins og unglingar gera. Unglingurinn í mér tengdi alveg við það. Sömuleiðis fá aðrar persónur leikritsins meira og fyllra líf þegar aðaláherslan er ekki lengur á hið göfuga og góða, heldur á manneskjurnar sem raunverulegar, heilsteyptar persónur.

Það er mikið afrek að skrifa leikrit upp úr sögu sem allir þekkja og allur heimurinn veit að endar með ósköpum, og gera það þannig að áhorfandinn fyllist samúð með hverri einustu persónu og fylgist af áhuga með lífi þeirra þessa stund. Það finnst mér þó takast í útgáfu Kesselman, á köflum sogaðist ég þannig inn í söguþráðinn að líf fólksins á loftinu yfirgnæfði örlög þeirra, þau voru bara venjulegar manneskjur í ómanneskjulegum aðstæðum, fólk sem sýndi mannlega reisn þrátt fyrir breyskleika sína og bresti.

Mig langar að lokum að hrósa leikstjóranum og leikhópnum fyrir að takast þetta á hendur, þessi saga á alltaf erindi við alla og það er nauðsynlegt að rifja hana upp fyrir nýjum kynslóðum á voveiflegum tímum.

Ingunn Snædal

Dagbók Önnu Frank verður sýnt í Freyvangsleikhúsinu á föstudags- og laugardagskvöldum allar helgar fram á vor.

Hægt er að nálgast miða í síma 857-5598 og á tix.is

Minningarsýning Dagbók Önnu Frank

Laugardaginn 14. mars verður hin reglubundna Minningarsýning leikfélagsins, en þar heiðrum við þá félaga okkar sem eru fallnir frá.

Öll innkoman af sýningunni rennur í sérstakan sjóð í eigu Freyvangsleikhússins og er sjóðurinn ætlaður til að styðja við félaga sem kjósa að mennta sig á námskeiðum tengdum sviðslistum og eflum við þannig starf félagsins.

Hlökkum til að sjá sem flesta til að minnast með okkur þessa góða fólks og styrkja arfleið þeirra í leikhúsinu.

Hægt er að nálgast miða í síma 857-5598 og á tix.is.

Frábær frumsýning að baki

Síðastliðinn föstudag frumsýndum við Dagbók Önnu Frank við frábærar undirtektir. Það er alltaf mikil gleði sem fylgir því að deila afrakstri vinnu sinnar en margir koma að sýningunni á einn eða annan hátt. Spennan og tilhlökkunin í húsinu var áþreifanleg og má segja að við lok sýningar hafi ekki verið þurrt auga í húsi, bæði meðal áhorfenda og á sviðinu.

Dagbókin lýsir svo vel augnablikum og atriðum sem eru sitt á hvað sorgleg, ógnvekjandi og meira að segja sprenghlægileg þess á milli. Þessi kengimagnaða saga er áhrifamikil og svo einstaklega ótrúleg en trúanleg á sama tíma og erum við aðstandendur sýningarinnar afskaplega stolt af afrakstri okkar.

Leikritið er eftir uppfærðri leikgerð sem hefur aldrei áður verið sýnd á Íslandi, og fengum við Ingunni Snædal til að þýða hana fyrir okkur. Þessi uppfærða leikgerð inniheldur kafla sem voru ekki birtir í fyrstu útgáfu bókarinnar Dagbók Önnu Frank og gefa þeir nánari innsýn inn í hugarheim stúlkunnar, meðal annars neikvæðar tilfinningar hennar gagnvart móður sinni og uppgötvanir hennar á sjálfri sér í gegnum kynþroskann. Leikstjóri er Sigurður Líndal og nálgast hann efnið af einstakri nákvæmni og virðingu.

Dagbók Önnu Frank er tvímælalaust eitt mikilvægasta bókmenntaverk tuttugustu aldarinnar. Þegar nasistar náðu völdum í Evrópu varð fjöldi gyðingafjölskyldna að yfirgefa heimaland sitt. Þau sem ekki fóru úr landi urðu að fela sig. Þau sem ekki földu sig enduðu í útrýmingarbúðum þar sem þau voru myrt á eins skilvirkan hátt og hægt var. Þessi voðaverk eiga fáa sína líka í mannkynssögunni. En úr þessum jarðvegi, þessu þjóðarmorði, sprettur ein magnaðasta saga sem sögð hefur verið úr nokkru stríði; saga Önnu.

Sýningar verða í Freyvangi föstudags- og laugardagskvöld fram á vori og hægt er að panta miða í síma 857-5598 og á tix.is.

Frumsýning 21. febrúar

Um er að ræða uppfærða leikgerð og nýja þýðingu sem hefur aldrei verið sýnd hér á landi. Þessi nýja leikgerð inniheldur kafla sem voru ekki birtir í fyrstu útgáfu bókarinnar, Dagbók Önnu Frank, sem verkið er byggt á. Gefa þessir kaflar nánari innsýn inn í hugarheim stúlkunnar.

Dagbók Önnu Frank er tvímælalaust eitt mikilvægasta bókmenntaverk tuttugustu aldarinnar. Þegar nasistar náðu völdum í Evrópu varð fjöldi gyðingafjölskyldna að yfirgefa heimaland sitt. Þau sem ekki fóru úr landi urðu að fela sig. Þau sem ekki földu sig enduðu í útrýmingarbúðum þar sem þau voru myrt á eins skilvirkan hátt og hægt var. Þessi voðaverk eiga fáa sína líka í mannkynssögunni. En úr þessum jarðvegi, þessu þjóðarmorði, sprettur ein magnaðasta saga sem sögð hefur verið úr nokkru stríði; saga Önnu.

Fyrsta leikgerðin er eftir Albert Hackett og Frances Goodrich, kom út skömmu eftir að Dagbókin sjálf var gefin út og hefur verið leikin um heim allan síðan. Fyrir nokkrum árum var leikskáldið Wendy Kesselman fengin til að uppfæra leikgerð Hackett og Goodrich og var tilnefnd til Tony-verðlaunanna fyrir verkið

Mynd frá æfingu.

Á tíunda áratugnum var Dagbókin sjálf endurútgefin, um þrjátíu prósentum lengri en hún var í upphaflegu útgáfunni sem ritstýrt var af Ottó Frank og útgefendum bókarinnar. Efnið sem upphaflega fékk ekki að vera með í útgáfu dagbókarinnar snerist fyrst og fremst um uppgötvun Önnu á sjálfri sér sem kynveru, og um neikvæðar tilfinningar hennar í garð móður sinnar

Frumsýnt verður 21. febrúar og sýningar verða í Freyvangi föstudags- og laugardagskvöld fram á vor.

Leikstjóri er Sigurður Líndal og þýðandi er Ingunn Snædal.

Hægt er að panta miða í s. 857-5598 og á Tix.is

Leikara vantar

Freyvangsleikhúsið auglýsir eftir ungum mönnum, á aldrinum 15-20 ára, til að taka þátt á sviði í leikritinu Dagbók Önnu Frank.

Æfingar hefjast þessa helgina og er mikil tilhlökkun í fólkinu okkar fyrir þessu spennandi verkefni.

Leikritið segir frá þeim tveim árum sem Anna Frank, 13 ára hollensk gyðingastúlka, dvaldist í felum undan nasistum á hrörlegu háalofti í vöruskemmu í Amsterdam, ásamt foreldrum sínum, systur og fjórum öðrum gyðingum. Þennan tíma heldur Anna dagbók sem hún trúir fyrir tilfinningum sínum og því hvernig hún upplifir þennan tíma þar sem skiptast á skin og skúrir.

Leikstjóri er Sigurður Líndal Þórisson og þýðandi Ingunn Snædal.

Áhugasamir geta haft samband í síma 899 7689 (Anna) eða í netfang freyvangur@gmail.com

Freyvangsleikhúsið setur upp Dagbók Önnu Frank

Við hjá Freyvangsleikhúsinu sitjum ekki auðum höndum og erum nú þegar í startholunum fyrir næsta verkefni en eftir áramótin setjum við upp sýninguna Dagbók Önnu Frank.

Leikritið segir frá þeim tveim árum sem Anna Frank, 13 ára hollensk gyðingastúlka, dvaldist í felum undan nasistum á hrörlegu háalofti í vöruskemmu í Amsterdam, ásamt foreldrum sínum, systur og fjórum öðrum gyðingum. Þennan tíma heldur Anna dagbók sem hún trúir fyrir tilfinningum sínum og því hvernig hún upplifir þennan tíma þar sem skiptast á skin og skúrir.

Um er að ræða uppfærða leikgerð og nýja þýðingu sem hefur aldrei verið sýnd hér á landi. Þessi nýja leikgerð inniheldur kafla sem voru ekki birtir í fyrstu útgáfu bókarinnar, Dagbók Önnu Frank, sem leikritið er gert eftir. Gefa þessir kaflar nánari innsýn inn í hugarheim stúlkunnar.

Leikstjóri er Sigurður Líndal Þórisson og þýðandi Ingunn Snædal.

Áheyrnarprufur verða dagana 7. Og 8. Desember kl. 13:00 báða dagana. Skráning í prufur og fyrirspurnir sendist á freyvangur@gmail.com. Hvetjum við alla áhugasama um starfið til að láta sjá sig. Æfingar hefjast svo í byrjun janúar og frumsýnt verður í febrúar.

Hittumst heil!

Allra síðasti séns!

Nú er aðeins ein sýning eftir af gamanleikritinu Blúndur og blásýra!

Þessi drepfyndna sýning hefur aldeilis kitlað hláturtaugar áhorfenda í haust sem og okkar sem komum að sýningunni.

Ef þú hefur ekki séð Blúndur og blásýru nú þegar þá mælum við með að þið tryggið ykkur miða á lokasýninguna áður en það verður of seint.

Miðasala í síma 857 5598 og á tix.is

Sýning á föstudag felld niður.

Því miður verðum við að fella niður sýningu á Blúndum og blásýru næstkomandi föstudag, 22. nóvember.

Það þýðir að aðeins eru þrjár sýningar eftir af þessu frábæra gamanleikriti, en Blúndur og blásýra verður sýnt á laugardögum kl. 20, 23. nóv, 30. nóv og 7. des.

Ekki missa af þessari drepfyndnu sýningu og pantaðu miða í síma 857 5598 eða á tix.is.

Minningarsýning

Kæru vinir.

Þann 16. nóvember næstkomandi verður hin reglubundna Minningarsýning leikfélagsins, en þar heiðrum við þá félaga okkar sem eru fallnir frá.

Allur ágóði minningarsýninga fer í sjóð sem félagar Freyvangsleikhússins geta sótt styrki í fyrir námskeið tengd sviðslistum.

Hægt er að panta miða í síma 857 5598 og á tix.is

Hlökkum til að sjá sem flesta til að minnast með okkur þessa góða fólks og styrkja arfleið þeirra í leikhúsinu.