28. febrúar næstkomandi frumsýnir Freyvangsleikhúsið söngleikinn Land Míns Föður eftir Kjartan Ragnarsson með tónlist eftir Atla Heimi Sveinsson.

Land míns föður er söngleikur um stríðsárin í Reykjavík, hernámið og það sem því fylgdi.
Hvaða áhrif hafði hernámið á íslendinga, einstaklinga og þjóðlífið í heild? Athyglin beinist að unga parinu Báru og Sæla og fólkinu í kringum þau. Þau eru að hefja búskap þegar stríðið skellur á. Sæli kýs að fara frekar á sjóinn en í bretavinnuna, en Bára og móðir hennar opna þvottahús sem þjónar hernum. Bára kynnist breskum liðsforingja og í fjarveru Sæla fella þau hugi saman. Ýmislegt gengur á áður en yfir lýkur og hlökkum við til að ferðast með ykkur aftur í tímann.

Höfundurinn

Kjartan Ragnarsson er fæddur 18. september 1945 í Reykjavík. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur árið 1966 og var síðan í framhaldsnámi í leiklist í Póllandi 1969 til 1970. Kjartan var leikari og leikstjóri hjá Leikfélagi Reykjavíkur frá 1966 um langt árabil. Hann hefur einnig leikstýrt mikið hjá Þjóðleikhúsinu og Nemendaleikhúsinu.

Kjartan er öflugur leikritahöfundur og hefur hann leikstýrt flestum verkum sínum sjálfur. Meðal leikrita eftir Kjartan má nefna Saumastofuna (1975), Blessað barnalán (1977) og Týndu teskeiðina (1977). Kjartan samdi meðal annars leikritin Peysufatadaginn (1981) og Dampskipið Ísland (1991) fyrir Nemendaleikhúsið.

Kjartan hefur gert fjölmargar leikgerðir eftir bókum, s.s. Ofvitann eftir Þórberg Þórðarson, Ljós heimsins og Höll Sumarlandsins eftir Halldór Laxness, Djöflaeyjuna eftir Einar Kárason og fleiri.

Tónskáldið

Atli Heimir Sveinsson (21. september 1938 – 2019) er líklega eitt af þekktari tónskáldum Íslands. Hann fékk Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 1976 fyrir „Konsert fyrir flautu og hljómsveit” sem hann samdi fyrir kanadiska flautuleikarann Robert Aitken.


Atli Heimir samdi mikið af leikhústónlist, óperum, ballettum og svokallaðri nútímatónlist. Eftir hann liggja meðal annars tíu einleikskonsertar, sex sinfóníur, fimm óperur.

Leave a comment