Eftirfarandi gagnrýni á Svejk birtist í Vikudegi fimmtudaginn þriðja mars.

Svejk svíkur engann!

Síðastliðinn föstudag frumsýndi Freyvangsleikhúsið Góða dátann Svejk eftir Tékkann Jaroslav Hasek í leikgerð Írans Colin Teevan. Sýningin hófst í anda aðalpersónunnar með ótrúlegu óhappi því flugvél sem átti að flytja tónlistarstjórann, eina aðalsprautu sýningarinnar, Hermann Inga Arason norður bilaði fyrirvaralaust svo frumsýningargestir máttu anda djúpt og bíða rólegir í nærri klukkustund þangað til sýningin gæti hafist. Það hljómar að sjálfsögðu klisjukennt að halda því fram að fall sé fararheill en það átti svo sannarlega við í þessu tilfelli.

Sagan af góða dátanum Svejk er mörgum þekkt en líklega eru þeir sem hafa heyrt eða lesið þetta frábæra verk svo ekki sé nú talað um þá sem hafa séð aðra leikgerð upp úr sögunni eða kvikmyndina komnir á miðjan aldur og þaðan af eldri. Það er því örugglega kominn tími til að kynna óbreytta dátann Svejk fyrir nýrri eða nýjum kynslóðum.

Svejk er ungur maður í Prag, sumir gætu sagt auðnuleysingi, sem fyrir röð tilviljana, lendir í þjónustu lautinants að nafni Lúkas sem „eignaðist“ okkar mann í spilum. Svejk hefur lag á því að koma geði fólks á hreyfingu og Lúkas er þar engin undantekning. Leikritið snýst að stórum hluta um samskipti Svejks og Lúkasar og eru margar senur með leik þeirra tveggja hreint óborganlegar. Góði dátinn Svejk verður ekki settur í einhverja eina skúffu en óneitanlega eru ævintýri hins óbreytta hermanns oft ótrúlega fyndin en um leið harmræn. Með sakleysislegum athugasemdum kallar Svejk oftar en ekki fram yfirgengileg viðbrögð samferðarmanna sinna og þá er erfitt að sjá hvort er verra heimskan eða hrokinn.

Brynjar Gauti Schiöth, sem leikur Svejk, stendur sig frábærlega vel og er að öllu leyti trúverðugur sem hin einfaldi en athuguli samfélagsrýnir í miðri styrjöld sem á sínum tíma var kölluð móðir allra styrjalda. Þó verður það að segjast að það er Ingólfur Þórsson sem vinnur virkilegan leiksigur í þessu verki. Hann gæti staðið á sviði hvaða leikhúss sem er og sómt sér vel. Svipaða sögu er reyndar að segja um allan hópinn því að leikstjórinn, Þór Tulinius, nær að skapa heildstæða sýningu þar sem texti, leikmynd, búningar, leikhljóð, hraði og skiptingar eru eins og best verður á kosið. Í tónlistinni má ekki gleyma framlagi áðurnefnds Hermanns Arasonar og félaga og textum Emilíu Baldursdóttur sem eru afbragðs góðir. Guðjón Ólafsson tók að sér að snúa leikgerðinni á íslensku og hefur það tekist með miklum sóma.

Hér væri hægt að halda áfram langri upptalningu því að rúmlega tuttugu leikarar taka þátt í sýningunni og þá er ótalinn þáttur þeirra þrjátíu sem lögðu með öðrum hætti lóð sitt á vogarskálar Thalíu til að gera þessa mettnaðarfullu sýningu að veruleika.

Ágúst Þór Árnason

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s