
Æfingar eru í fullu fjöri á fjölum Freyvangsleikhússins og verður gamanleikritið Blúndur og blásýra í leikstjórn Völu Fannel frumsýnt í október.
Systurnar Abby og Martha búa í ættarhúsinu ásamt bróðursyni sínum sem gengur ekki heill til skógar. Þær hafa orð á sér fyrir að vera einstök gæðablóð sem vilja allt fyrir alla gera. Annar bróðusonur þeirra býr skammt frá og nýtur góðs af gestrisni systranna. Svarti sauðurinn í fjölskyldunni kemur heim með miður göfug áform og ýmis konar misskilningur kemur upp því engan grunar að systurnar hafi myrt tólf manns með eitri og grafið í kjallaranum.
Leikritið var frumsýnt á Broadway árið 1941 og var þar á fjölunum í tæp þrjú ár við miklar vinsældir og hlaut mikil lof áhorfenda. Kvikmynd eftir leikritinu kom út 1944 og hlaut einnig mikil lof. Verkið hefur þótt mjög vinsælt í íslensku leiklistarflórunni, enda bráðskemmtilegt og drepfyndið.
Frumsýnt verður upp úr miðjum október og sýningar verða í Freyvangi föstudags- og laugardagskvöld fram að jólum.
Miðasalan opnar 1. Október. Miðaverði verður stillt í hóf og kostar hver miði aðeins 3.500 kr. en við bjóðum líka upp á frábær hópatilboð.