Meira um Svejk

Eftirfarandi gagnrýni á Svejk birtist í Vikudegi fimmtudaginn þriðja mars.

Svejk svíkur engann!

Síðastliðinn föstudag frumsýndi Freyvangsleikhúsið Góða dátann Svejk eftir Tékkann Jaroslav Hasek í leikgerð Írans Colin Teevan. Sýningin hófst í anda aðalpersónunnar með ótrúlegu óhappi því flugvél sem átti að flytja tónlistarstjórann, eina aðalsprautu sýningarinnar, Hermann Inga Arason norður bilaði fyrirvaralaust svo frumsýningargestir máttu anda djúpt og bíða rólegir í nærri klukkustund þangað til sýningin gæti hafist. Það hljómar að sjálfsögðu klisjukennt að halda því fram að fall sé fararheill en það átti svo sannarlega við í þessu tilfelli.

Sagan af góða dátanum Svejk er mörgum þekkt en líklega eru þeir sem hafa heyrt eða lesið þetta frábæra verk svo ekki sé nú talað um þá sem hafa séð aðra leikgerð upp úr sögunni eða kvikmyndina komnir á miðjan aldur og þaðan af eldri. Það er því örugglega kominn tími til að kynna óbreytta dátann Svejk fyrir nýrri eða nýjum kynslóðum.

Svejk er ungur maður í Prag, sumir gætu sagt auðnuleysingi, sem fyrir röð tilviljana, lendir í þjónustu lautinants að nafni Lúkas sem „eignaðist“ okkar mann í spilum. Svejk hefur lag á því að koma geði fólks á hreyfingu og Lúkas er þar engin undantekning. Leikritið snýst að stórum hluta um samskipti Svejks og Lúkasar og eru margar senur með leik þeirra tveggja hreint óborganlegar. Góði dátinn Svejk verður ekki settur í einhverja eina skúffu en óneitanlega eru ævintýri hins óbreytta hermanns oft ótrúlega fyndin en um leið harmræn. Með sakleysislegum athugasemdum kallar Svejk oftar en ekki fram yfirgengileg viðbrögð samferðarmanna sinna og þá er erfitt að sjá hvort er verra heimskan eða hrokinn.

Brynjar Gauti Schiöth, sem leikur Svejk, stendur sig frábærlega vel og er að öllu leyti trúverðugur sem hin einfaldi en athuguli samfélagsrýnir í miðri styrjöld sem á sínum tíma var kölluð móðir allra styrjalda. Þó verður það að segjast að það er Ingólfur Þórsson sem vinnur virkilegan leiksigur í þessu verki. Hann gæti staðið á sviði hvaða leikhúss sem er og sómt sér vel. Svipaða sögu er reyndar að segja um allan hópinn því að leikstjórinn, Þór Tulinius, nær að skapa heildstæða sýningu þar sem texti, leikmynd, búningar, leikhljóð, hraði og skiptingar eru eins og best verður á kosið. Í tónlistinni má ekki gleyma framlagi áðurnefnds Hermanns Arasonar og félaga og textum Emilíu Baldursdóttur sem eru afbragðs góðir. Guðjón Ólafsson tók að sér að snúa leikgerðinni á íslensku og hefur það tekist með miklum sóma.

Hér væri hægt að halda áfram langri upptalningu því að rúmlega tuttugu leikarar taka þátt í sýningunni og þá er ótalinn þáttur þeirra þrjátíu sem lögðu með öðrum hætti lóð sitt á vogarskálar Thalíu til að gera þessa mettnaðarfullu sýningu að veruleika.

Ágúst Þór Árnason

Fáein orð um Svejk

Leikfélaginu hefur borist bréf. Eftirfarandi er innihald þess:

Þessi sýning var fagnaðarefni. Hún var kraftaverk af hendi leikstjóra og allra sem að henni standa. Í mínum huga gekk allt upp, frábær leikmynd og búningar, leikmunir réttir og sannir og umgjörðin öll til fyrirmyndar. Leikarar stóðu sig með stakri prýði og margir framúrskarandi.

Sýningin ber öll vott um öguð vinnubrögð, kraft og einlægni þeirra sem að henni koma.

Húrra – Bravó fyrir Freyvangsleikhúsinu.

Þráinn Karlsson, leikari.

Við þökkum góð orð í okkar garð.

Sýningarplan – gefið út með fyrirvara um breytingar!

Föstudagur 18. mars kl. 20:00            7. sýning. Örfá sæti laus.

Laugardagur 19. mars kl. 16:00           8. sýning. Uppselt!

Laugardagur 19. mars kl. 20:00          9. sýning. Laus sæti.

Föstudagur 25. mars kl. 20:00            10. sýning. Laus sæti.

Laugardagur 26. mars kl. 20:00         11. sýning. Laus sæti.

Þetta sýningaplan er gefið út með fyrirvara um breytingar.

Frumsýningu frestað!

Vegna óviðráðanlegra orsaka verðum við því miður að fresta frumsýningunni á Góða Dátanum Svejk um eina viku. Í stað þess að frumsýna 19. febrúar munum við frumsýna föstudaginn 25. febrúar kl. 20:00.

2. sýning verður laugardagskvöldið 26. febrúar.

Okkur þykir það miður að þurfa að fresta sýningunni og biðjumst við velvirðingar á því.

 

Næstu sýningar á Bannað börnum

Altt á fullu á Huldusteini

Laugardagssýningar 9. og 16. október falla niður af óviðráðanlegum orsökum. Næstu sýningar eru:
4. sýning 15. október
5. sýning 22. október
6. sýning 23. október
7. sýning 29. október
8. sýning 30. október – lokasýning
Miðaverð aðeins kr. 2.000,- kr. eða 1.500,- kr. gegn framvísun skólaskírteinis MA, VMA eða HA. Miða er hægt að panta í síma 857 5598 eða hér á heimasíðunni undir flipanum: „Panta miða“.
Á Kistan.is hefur nú birst leikdómur um Bannað börnum. Þar stendur m.a.:
„í Bannað börnum tekst höfundum alveg snilldarvel að tengja gamaldags heim hjátrúar og þjóðsagna við heim nútímamannsins.“
„Texti verksins er mjög fyndinn, bæði hvað varðar heilu atriðin en ekki síður afar húmoríska punkta í miðri dramatíkinni.“
„Leikritið sjálft er alveg fantagott og ekki er ólíklegt að leikararnir sjóist í rullunni þegar fyrstu sýningum er lokið.“

Hægt er að lesa leikdóminn í heild sinni á Kistan.is

 

Bannað börnum – Myndir

Æfingar standa nú yfir á verkinu Bannað börnum, eins og áður hefur komið fram. Ljósmyndari Freyvangsleikhússins skellti sér á æfingu og smellti af nokkrum myndum. Þær má sjá á Flickr síðu Freyvangs en á hana má komast hér hægra megin á síðunni. Eins og sjá má á myndunum er óhætt að lofa góðri kvöldstund í Freyvangi. Frumsýning er 30 september næstkomandi.

Bannað börnum frumsýnt 30. september

Vínglas á hlið, vínið lekur eins og blóð og myndar orðin Bannað börnum
Erótísk hryllingskómedía

Fimmtudaginn 30. september verður erótíska hryllingskómedían Bannað börnum frumsýnd í Freyvangsleikhúsinu í Eyjafjarðarsveit. Bannað börnum sem er leikrit í fullri lengd er nýjasta viðbótin í „Haustverkefni Freyvangsleikhússins“ sem hleypt var af stokkunum síðasta haust með uppsetningu á Memento Mori eftir Hrefnu Friðriksdóttur.

 

Bannað börnum er frumsamið gamanverk eftir fjóra meðlimi Freyvangsleikhússins, þá Daníel Frey Jónsson, Hjálmar Arinbjarnarson, Karl Pálsson og Sverri Friðriksson en Daníel leikstýrir jafnframt sýningunni. Verkið var samið núna í sumar og byggir á íslenskum þjóðsögum um álfa og uppvakninga þó það gerist í nútímanum.

Ungur maður hefur komist á snoðir um undarleg mannshvörf og tengir þau yfirnáttúrulegum verum sem hafa aðsetur sitt á drungalegri krá sem ber nafnið Huldusteinn. Tilraunir hans til að upplýsa málið leiða áhorfendur á spor galdra, óvætta, holdsins fýsna, mannsfórna og jafnvel kölska sjálfs. Að lokum stendur ungi maðurinn, ásamt áhorfendum, frammi fyrir spurningunni um það hver sé góður og hver illur eða hvort „hið góða“ og „hið illa“ sé yfirhöfuð til.

Haustverkefni Freyvangsleikhússins er átak sem hrint var af stað haustið 2009 í þeim tilgangi að gefa meðlimum Freyvangsleikhússins tækifæri til að fást við sem flestar hliðar leiklistarstarfsemi; skriftir, leikstjórn, sviðshönnun, ljósahönnun o.s.frv. og opna tækifæri til að setja upp sýningar sem eru annars eðlis en aðalverkefni félagsins sem er stór sýning sem sett er upp eftir áramót.

2. sýning verður föstudaginn 1. október. Miða verður von bráðar hægt að panta hér á síðunni undir flipanum: Panta miða og einnig verður hægt að nálgast miða í síma: 857 5598. Miðaverð 2.000,- kr en 1.500,- kr gegn framvísun skólaskírteinis VMA, MA eða HA.