Búið að opna fyrir miðasölu

Nú er hægt að fara að kaupa miða á Himnaríki – geðklofinn gamanleik.

Við bjóðum upp á fjölbreytt úrval miðakaupaaðferða:

  1. Hægt er að smella hér og fara eftir leiðbeiningunum.
  2. Hægt er að smella á flipann „Panta miða“ hér að ofan og panta miða þar.
  3. Hægt er að senda póst á freyvangur@gmail.com og panta miða.
  4. Hægt er að hringja í miðasölusímann 857 5598 milli kl. 17 og 19 alla daga. Utan þess tíma er hægt að skilja eftir skilaboð á símsvara.
  5. Hægt er að rölta sér í Eymundsson og kaupa gjafabréf á afslætti til 5. febrúar.

Freyvangsleikhúsið Eyjafjarðarsveit

Næstkomandi þriðjudagskvöld, klukkan 20:00 verður haldinn fyrsti kabarett fundurinn í Freyvangi. Ætlunin er að setjast niður og ræða málin og skipuleggja næstu skref. Venjan hefur verið að sýna kabarettinn fyrstu helgina í nóvember en í ár munum við breyta út af þeirri venju. Ætlunin er að sýna aðra eða þriðju helgina í mánuðinum.

Jónsteinn Aðalsteinsson ætlar að stýra kabarettinum í ár og er það ætlunin að setja á svið frábæra sýningu sem allir hafa gaman af.

Ef þið hafið áhuga á að vera með, endilega mætið á þriðjudagskvöldið og ekki væri verra ef þið hefðuð einhverjar hugmyndir í farteskinu.

Endilega bjóðið öllum þeim með ykkur sem hafa áhuga á að taka þátt í skemmtilegu verkefni.

Nývirki frumsýnt

Leikhópurinn glaðbeittur á æfingu

Nývirki, haustsverkefni Freyvangsleikhússins 2011, verður frumsýnt í kvöld kl. 20:00.

Nývirki eru níu ný stuttverk eftir félaga í Freyvangsleikhúsinu.

Sannleikurinn eftir Helga Þórsson í hans leikstjórn. Hvers eðlis er sannleikurinn? Bítur hann eða er hægt að drepa hann?

Axjón eftir Hjálmar Arinbjarnarson í hans leikstjórn. Ýmislegt getur gengið á í framleiðslu áhugaverðra mynda fyrir fullorðna.

Merkilegt eftir Önnu Maríu Hjálmarsdóttur og Halldóru Kr. Vilhjálmsdóttur í leikstjórn Theodórs Inga Ólafssonar. Hafa ráðsett hjón fjarlægst hvort annað vegna tölvutækninnar?

Skyrturnar eftir Atla Viðar Engilbertsson í leikstjórn Daníels Freys Jónssonar. Ráðherrann vill bara hvítar skyrtur, ekki svartar eða gular! Hvernig bregst hann við áreitni herra Bleiks og yfirgangi fröken Bláhers? Hvað koma álfarnir þessu við?

Handbók fyrir byrjendur eftir Hjálmar Arinbjarnarson í hans leikstjórn. Ný sýn á Gullna hliðið í kjölfar nýrra aðstæðna í breyttum raunveruleika íslensks samtíma.

Kaffi, smók og piss eftir Daníel Frey Jónsson í hans leikstjórn. Þegar fólk hefur verið alið upp á kaffi á það stundum erfitt með að sjá að kaffi er kannski ekki eins gott og hollt og það hélt. Þegar einhver bendir á að sumt sem hefur verið gengið út frá sem viðteknum sannleik, standist ef til vill ekki, riðar heimsmyndin til falls.

Banvæn viðskipti eftir Helga Þórsson í leikstjórn Ingólfs Þórssonar. Viðskipti á miðöldum varpa ljósi á hugmyndir og heimsmynd sem var.

Jón Jónsson eftir Úlfhildi Örnólfsdóttur í leikstjórn Theodórs Inga Ólafssonar. Þegar Jóni Jónssyni er boðin stöðuhækkun virðist framtíðin blasa við honum en hann er ekki alveg viss um hvort hann eigi að þiggja stöðuna því gagnstæðar langanir togast á hjá honum.

Dah… eftir Elísabetu Katrínu Friðriksdóttur í leikstjórn Helga Þórssonar. Samskipti kynjanna geta verið margslungin og eðli ástarinnar undarlegt. Hvað er það á endanum sem ræður úrslitum í þeim efnum?

Leikarar í Nývirki eru: Anna María Hjálmarsdóttir, Anton Albert Eggertsson, Arnar Hrólfsson, Brynjar Gauti Schiöth, Dagbjört Guðjónsdóttir, Daníel Freyr Jónsson, Halldóra Kr. Vilhjálmsdóttir, Hallur Örn Guðjónsson, Helgi Þórsson, Hjálmar Arinbjarnarson, Inga María Ellertsdóttir, Ingibjörg Ásta Björnsdóttir, Steingrímur Magnússon, Theodór Ingi Ólafsson og Úlfhildur Örnólfsdóttir. Flestir leikaranna leika í fleiri en einu verki.

Miðaverði er stillt í hóf, eða einungis 1.500,- kr. og hægt er að panta miða hér á síðunni (undir flipanumPanta miða hér að ofan) eða í síma 857 5598 milli 17:00 og 19:00.

Sýnt í október.

Haustverkefni 2011

Haustverkefni Freyvangsleikhússins 2011 verður frumsýnt föstudaginn 7. október kl. 20:00 í Freyvangi.

Þetta er í þriðja sinn sem lagt er af stað með haustverkefni og að þessu sinni er um að ræða stuttverkasýningu þar sem frumflutt verða 9 verk eftir 8 höfunda í leikstjórn 5 félagsmanna í Freyvangsleikhúsinu. 15 leikarar fara með hlutverkin og a.m.k. 6 aðstoðarmenn sjá um búninga, leikmuni, lýsingu, hljóð, sviðsmynd, miðasölu, afgreiðslu o.s.frv.

Haustverkefnið hefur þann tilgang að gefa félagsmönnum tækifæri til að koma að fleiri þáttum í leikhússtarfinu en hægt er í aðalsýningu vetrarins, s.s. leikstjórn, ljósahönnun, sviðshönnun, skrifum o.s.frv. með það að markmiði að auka fjölbreytni í starfsemi félagsins og gefa sem flestum tækifæri til að spreyta sig á því sem helst vekur áhuga þeirra.

Meiri aðsókn var á haustverkefnið í fyrra en fyrsta árið og það er von okkar að enn fleiri sjái ástæðu til að kíkja á okkur í þetta skiptið. Miðaverði er stillt í hóf, eða einungis 1.500,- kr. og hægt er að panta miða hér á síðunni (undir flipanum Panta miða hér að ofan) eða í síma 857 5598.

Aðalfundur Freyvangsleikhússins

Aðalfundur Freyvangsleikhússins verður haldinn í Freyvangi 9. september n.k. kl. 20:00.
Dagskrá: Hefðbundin aðalfundarstörf.
Fyrir fundinum liggur lagabreytingartillaga um að orðin: „Árstillag næsta árs.“ falli út úr upptalningu í 4. grein.
Boðið verður upp á grill og gleði eftir fund.
Áhugaverð verkefni framundan.
Gamlir sem nýir félagar kvattir til að mæta.
Sjáumst sem flest, stjórn Freyvangsleikhússins.

Haustverkefni 2011

Nú er búið að ákveða að að þessu sinni verður einþáttungahátíð haustverkefni Freyvangsleikhússins haustið 2011. Nú þegar hefur hópur félagsmanna hist vikulega í u.þ.b. mánuð og skrifað hörðum höndum. Fimm félagsmenn ætla að taka að sér leikstjórn. Allir félagsmenn sem áhuga hafa á að vera með í haustverkefninu, hvort sem það er sem leikarar, sminkur, sviðsmenn, smiðir, ljós- eða hljóðálfar, mæti í Freyvang miðvikudagskvöldið 24. ágúst kl. 20:30.

Haustverkefni 2011

Undirbúningur vegna haustverkefnis 2011 er að hefjast. Fyrsti undirbúningsfundur verður haldinn miðvikudaginn 27. júlí kl. 20:30 á Bláu könnunni. Áhugasamir eru hvattir til að mæta. Stefnt er að því að halda vikulega undirbúningsfundi þangað til æfingar hefjast, væntanlega í lok ágúst eða um mánaðarmótin ágúst/september.
Þeir sem ekki komast á fundinn á miðvikudagskvöldið en hafa áhuga á að vera með mega endilega láta Daníel vita í póstfangið: danielfrjons@gmail.com

Svejk á leið í Þjóðleikhúsið

Sýningin í Þjóðleikhúsinu verður sunnudaginn 29. maí kl. 20:00. Miðasala er í Þjóðleikhúsinu og á midi.is

Brynjar Gauti í hlutverki sínu sem Svejk

Eins og alþjóð sennilega veit þá er Freyvangsleikhúsið að fara með sýningu sína, Góði Dátinn Svejk í Þjóðleikhúsið í lok mánaðarins. Því verða tvær aukasýningar á verkinu hér norðan heiða á næstunni. Bæði er það til að gefa þeim sem ekki enn hafa séð sýninguna tækifæri til þess og einnig er ætlunin að afla peninga til fararinnar. Þannig að þeir sem vilja sjá gott leikrit og í leiðinni styrkja leikfélagið endilega mætið í Freyvang.

Sýnt verður laugardaginn 21. maí kl. 20:00 og sunnudaginn 22. maí kl. 15:00. Á sunnudagssýningunni verður boðið upp á vöfflur og kaffi að hætti formannsins. Miðaverð á sýningarnar er 2000 krónur og eru kaffiveitingarnar innifaldar í því verði á sunnudeginum.

Þar sem sumarstarfsemin er hafin í Freyvangi þá er búið að taka niður pallanna og því eru sætin niður á gólfi.

Með bestu kveðjum.