Ný heimasíða komin í loftið

Heil og sæl kæru leikhúsgestir!

Eins og eflaust margir, glöggir fylgendur Freyvangsleikhússins hafa tekið eftir, þá hefur heimasíðan, freyvangur.net, okkar legið niðri í þó nokkran tíma. En nú er komin ný, betrumbætt síða í loftið undir slóðinni http://www.freyvangur.is!

Á nýju síðunni okkar er margt skemmtilegt að finna, eins og ýmsar myndir úr leikhúsinu, saga leikfélagsins, lög félagsins og margt annað gott og nytsamlegt. Á næstu misserum munum við halda áfram að bæta við inn á síðuna, þá sérstaklega myndum, svo að áhugamenn geti rifjað upp gamla og góða tíma.

Ýmislegt hefur á daga okkar dregið, hér í Freyvangsleikhúsinu síðan gamla síðan lokaði. En síðasta vor settum við upp gamanleikinn Góðverkin kalla! undir leikstjórn þeirra hjóna Margrétar Sverrisdóttur og Sr. Odds Bjarna Þorkellssonar, og voru viðtökur mjög góðar.

Og síðustu vikur höfum við verið að æfa nýtt og spennandi verkefni fyrir haustmisserið, en það er Afmælissýning Freyvangsleikhússins! Núna í ár eru nefnilega 60 ár síðan fyrst var sett up leiksýning í Freyvangi, en það var leikritið Ráðskona Bakkabræðra árið 1957. Húsið ómar enn á ný af leik og söng en góður hópur eldri og yngri félaga undir styrkri stjórn Vandræðaskálda munu stíga á stokk og leiða ykkur í gegnum brot af því besta úr ýmsum sýningum. Dramatísk, fyndin, skrýtin og skemmtileg atburðarás ásamt safaríkum sögum af baksviðinu og uppákomum á sýningum.

Stefnt er að frumsýningu í byrjun nóvember, nánari dagsetning auglýst síðar.
Hlökkum til að sjá ykkur!

644A1353_preview
Aðstandendur Afmælissýningar Freyvangsleikhússins

Tímaflakk í Freyvangsleikhúsi.

Þann 12. mars 2016 frumsýndi Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit leikritið Saumastofuna eftir Kjartan Ragnarson. Það var sérstök upplifun á þessu hryssingslega marskvöldið 2016 að flakka fram og tilbaka milli síðnútíma og ársins 1975 í gegnum efnistök leikverksins. Um leið og hljómsveitin slær fyrsta tóninn þá er áhorfendum kippt til ársins 1975 og þeirri tilfinningu vel við haldið í sviðsmynd og búningum leikaranna sem nú stíga á svið. Það er eftirvænting í loftinu og verkið fer snurðulaust af stað, saumakonurnar setja við saumavélar sínar eins og vera ber og eigandinn lætur sjá sig til að klappa á rassa og undirstrika karllægan valdastrúktúrinn í fyrirtækinu. Árið er 1975 og verkakonurnar keppast við að sauma í þágu fjármagnseigandans sem gefur þeim „vingjarnlegt“ klapp á rassinn þegar tækifæri gefst til. En svo þegar líður á sýninguna hætta skilin á milli 1975 og 2016 að vera jafnskýr og sé áhorfandinn læs á stöðu kynjanna í síðnútímanum þá er honum bara alls ekkert alltaf ljóst hvort liðna tíð eða nútíð er að ræða í umfjöllunarefnum verksins. Viðfangsefni leikverksins Saumastofunnar frá 1975 eru nefnilega líka viðfangsefni ársins 2016 eins og; stéttabarátta, jafnréttisbarátta, samstaða, kyngervi, kynbundin launamunur, kynhneigð, kynvitund, fátækt, kynbundið ofbeldi, staðalímyndir, kynferðisleg áreitni, geðheilbrigði og lífsgæðakapphlaup.

IMG_8650

Mörg lifum við okkar daglegu lífi í nánu samneyti við annað fólk án þess endilega að þekkja sögur þess vel. Það er annað áhugavert sjónarhorn Saumastofunnar hvernig við getum látið daglegt líf renna áfram í slíku samneyti án þess að hafa þörf eða getu til að öðlast meiri þekkingu eða kunnugleika á lífi þeirra sem við erum í daglegum samskiptum við. Þetta breytist þó á Saumnum þegar Sigga kemur með ferðatöskur fullar af hnallþórum og víni í tilefni af sjötugs afmæli sínu og losnar þá um málbein saumakvennanna sem deila lífsögum sínum hver af annarri. Í ljós kemur að konurnar sem unnið hafa saman í lengri tíma þekkja hver aðra mjög lítið. Áhorfandinn deilir gleði og sorgum með starfsfólkinu á saumastofunni Saumnum þar sem eftir lifir sýningar og leikhópnum tekst vel upp við að koma öllum þessum mannlegu sögum til skila í máli og söng með skýrum og sannfærandi hætti. Það þéttir sýninguna óneitanlega að hafa lifandi undirspil og eru útsetningar og flutningur tónlistarinnar fínar. Auðvitað, eins og gefur að skilja í áhugamannasýningu sem þessari, þá komast leikararnir misvel frá söngatriðunum en í heildina gengur útfærslan upp og öll komast þau vel frá sínu. Að öðrum ólöstuðu þá komast þær Sædís Gunnarsdóttir í hlutverki Siggu hinar sjötugu og Úlfhildur Örnólfsdóttir í hlutverki Gunnu best frá sínum hlutverkum. Sigga sem afsakandi hefur þjónað öðrum allt sitt líf er sannfærandi og Gunna sem missti ungt barn sitt er kraftmikil í sínu hlutverki. En framsetning allra leikaranna er góð og trúverðug. Ágæti innkoma Kalla sem leikinn er af Hjálmari Arinbjarnarsyni minnir okkur hversu heftandi staðalímyndir geta verið sem er góð áminning á tímum ofurkynjaðrar markaðssetningar.

IMG_7787.JPG

Heildaryfirbragð sýningarinnar er gott, leikmyndin er einföld en vel útfærð. Hljómsveitin er í bakgrunni sýningarinnar en samt svo mikilvæg heildarmyndinni. Tónlistin, Hagkaupsslopparnir og litríkir kjólar saumakvennanna ýta undir hugrenningatengsl við áttunda áratuginn ásamt afdráttarlausri karlrembu yfirmannsins. Það er alltaf sérstök stemning sem fylgir þéttum áhugamannaleiksýningum og enn og aftur tekst Freyvangsleikhúsinu vel upp. Efnisvalið er gott í kjölfar 100 ára kosningaafmælis kvenna og allra þeirra byltinga sem fram fóru á því ári. Verkið talar inn í nútímann á sama tíma og það er söguleg heimild um að það sem okkur þykja sjálfsögð réttindi í dag hafa ekki áunnist af sjálfu sér heldur með sameiginlegri baráttu og ekki síst samstöðu sem saumastofuneigandinn gerir svo fjálglega grín af að konum skorti. Þetta er í fyrsta skipti sem undirrituð sér uppsetningu á Saumastofu Kjartans Ragnarssonar en ég er afskaplega ánægð með þessa uppsetningu í Freyvangsleikhúsinu, þar sem leikararnir og allir aðstandendur sýningarinnar eiga mikið hrós skilið. Ég vona að leikhús landsins haldi áfram að setja upp þetta vel skrifaða og mannlega verk og að einn góðan veðurdag gætum við sagt að efnistökin séu barn síns tíma af því að við höfum þá náð jafnrétti og að þau viðfangsefni sem talin eru upp hér að ofan heyri sögunni til en orsaka ekki þessa þrúgandi áminningu um að þrátt fyrir árangur í jafnréttismálum þá eigum við enn svo mikið eftir áunnið. Frábær sýning!

Andrea Hjálmsdóttir

Saumastofan

3I7A6990.JPGHvað gerist þegar sex konur slá upp afmælisveislu á vinnutíma, engri venjulegri veislu? Flóðgáttir opnast og í gamni og alvöru, gleði og söng segja þær sögur sínar. Meðan starfsfólk saumastofunnar ýmist segir og ekki síst syngur sögur sínar bregða hinar persónur leikritsins sér í gerfi til að leika söguna sem verið er að segja hverju sinni. Inn í gamanið blandast svo umræðan um hlutverk kvenna í samfélaginu.

Þetta er efnið sem Freyvangsleikhúsið sníður úr á Saumastofunni eftir Kjartan Ragnarsson, sem með leikritinu steig fram á kraftmikinn hátt sem leikskáld, ásamt því að leikstýra fyrstu uppfærslunni og semja lögin og söngtextana í verkinu. Leikritið og lögin slógu í gegn og urðu sýningarnar yfir 200 á þremur árum hjá Leikfélagi Reykjavíkur en síðan þá hefur leikritið verið sett upp víða um land við frábærar undirtektir.

Efniviðurinn var ekki valinn af handahófi. Árið var 1975, kvennaárið sem náði hámarki á kvennafrídaginn. Saumastofan er meðal annars þjóðfélagsádeila þar sem staða konunnar er þungamiðja leikritisins. Af hverju eru konur með lægri laun en karlar? Af hverju eru völdin í höndum karlmanna? Þessar spurningar brenna á konunum á Saumastofunni sem takast á við þær í tímalausu verki.

3I7A7251-2.JPG

Saumastofan er 50. uppsetning Freyvangsleikhússins. Leikstjóri er Skúli Gautason en um tónlistarstjórn sér Helga Kvam. Leikmynd gerir Þorsteinn Gíslason og um búninga og leikmuni sér Anna Bryndís Sigurðardóttir. Leikhópinn skipa níu vaskir leikarar ásamt fjögura manna hljómsveit.

Saumastofan verður frumsýnd laugardaginn 12. mars kl. 20 í Freyvangi og verður sýnt föstudags og laugardagskvöld í mars og apríl.

Nánari upplýsingar og miðapantanir í síma 857-5598 eða freyvangur@gmail.com

 

Minningarsýning Freyvangsleikhússins

 

Kæru vinir.

Við hjá Freyvangsleikhúsinu viljum vekja athygli á að Minningarsýning kemur í stað Stjánasýningar sem leikfélagið hefur verið með á ári hverju í nokkurn tíma. Ættingjar Stjána óskuðu eftir þessari breytingu og fannst rétt að heiðra minningu fleiri félaga.

Þess má geta að innkoman af sýningunni rennur í sérstakan sjóð í eigu Freyvangsleikhússins, er sjóðurinn ætlaður til að styðja við félaga sem kjósa að mennta sig á námskeiðum ásamt annari uppbyggingu félagsins.

Minningarsýning genginna félaga verður laugardaginn 19. desember næstkomandi kl. 14.

Screen Shot 2015-12-15 at 11.18.48

Klaufar og kóngsdætur falla niður vegna veðurs

Kæru vinir.

Því miður sjáum við okkur ekki annað fært en að fella niður sýninguna, sem átti að vera kl. 14 í dag, vegna veðurs.

Það eru mörg börn og ungmenni sem leika í sýningunni okkar, ásamt því að stærstur hluti áhorfenda okkar eru börn. Við hjá Freyvangsleikhúsinu viljum ekki taka neinar áhættur með að fólk sitji fast í kuldanum með krakkana, svo að það verður ekki sýning í dag.

Við mælum frekar með því að fólk nýti daginn í að liggja undir teppi með heitt kakó og bíða eftir jólunum.

Haft verður samband við alla þá sem áttu pantaða miða í dag og þeim boðið að koma á morgun í staðinn.

Endilega hafið samband við miðasölu í síma 857-5598 fyrir frekari upplýsingar.

 

happy-blizzard-christmas-3525410

“enn ein rós í hnappagat Freyvangsfólks”

Kæru vinir!

Þann 24. október síðastliðinn frumsýndum við fjölskyldusýninguna Klaufar og kóngdætur við mjög góðar undirtektir.

Meðal frumsýningargesta voru þau Íris Ólöf Sigurjónsdóttir og Hjörleifur Hjartarson, en eftir sýninguna skrifuðu þau gagnrýninina hér að neðan og gáfu okkur fullt leyfi til að nota hana að vild.

Við þökkum Írisi og Hjörleifi kærlega fyrir komuna og fyrir hlý orð í okkar garð.

Freyvangsleikhúsið frumsýndi Klaufa og kóngsdætur eftir þá Sævar Sigurgeirsson, Ármann Guðmundsson og Þorgeir Tryggvason þann 24. október sl. Leikurinn er borinn upp af kornungum leikurum sem margir hverjir hafa tekið þátt í leikuppfærslum á Akureyri,m.a. leikið engla í Gullna Hliðinu og búið sér sjálf til vettvang til leiklistar þegar því er að skipta. Auk þeirra skipa eldri og reyndari leikarar stór hlutverk í sýningunni og ljá henni þá þyngd og festu sem nauðsynleg Freyvangur kongar og kongsdaetur 43-15-01 (1)er. Þessi samsetning leikhópsins er e.t.v. lýsandi fyrir starfsemi Freyvangsleikhússins sem hefur haldið dampi lengur og betur en flest áhugafélög, verið listrænn farvegur fyrir bæði reynslubolta og byrjendur á leiksviði og sett upp hverja metnaðarfullu leiksýninguna á fætur annari. Freyvangsleikhúsið vílar ekki fyrir sér að ráðast í gríðarlega metnaðarfull verkefni og hefur m.a. oftlega séð Norðlendingum fyrir barna- og fjölskylduleikhúsi sem tilfinnanlega hefur skort í leikhúslíf Akureyrar.

Leikritið Klaufar og kóngsdætur hlaut grímuverðlaunin sem barnaleikrit ársins árið 2005 og þarf engan að undra því það er vel og fallega saman sett af ljótu hálfvitunum þrem; Ármanni, Sævari og Þorgeiri. Við veltum raunar fyrir okkur á heimleiðinni hvers vegna þessi snillimenni væru ekki hreinlega á launum hjá leikhúsum borgarinnar við að skrifa barnaleikrit. Ármanni Guðmundssyni leikstjóra eru vissulega hæg heimatökin að stjórna eigin verki en á móti er þar nokkur aðstöðumunur að hafa ekki brúðuleikhús við hendina og allar þær töfralausnir sem Þjóðleikhúsið hefur upp á að bjóða. Ármann hefur unnið fábært starf með þessum unga leikhópi og nýtt sér út í æsar þá hömlulausu leikgleði sem þarna svífur yfir vötnum.

3I7A4581

Sýningin er mikið hópverkrefni og engin leið eða ástæða til að staldra við frammistöðu einstakra leikara sem flestir voru í mörgum hlutverkum. Ekki verður þó annað hægt en að minnast á þann sem aðeins lék eina persónu þ.a.s. Valdimar Gunnarsson í hlutverki ævintýraskáldsins H. C. Andersens.Hann dúkkaði upp með jöfnu millibili með sínum fallega talanda og náði einstaklega vel að vera sú góðlátlega þungamiðja sem öll ævintýrin hverfðust um.


Búningar og lýsing og leikmynd undirstrikuðu ævintýrablæinn.
Búningarnir voru í hressilegum litum og margt þar snilldarlega gert s.s. kórónur úr plasthnífapörum og smádóti úr ýmsum áttum. Þessi litskrúðugi öskudagsstíll gat þó á köflum verið full sundurgerðarlegur til að þjóna frásögninni í leikritinu. Tónlistarflutningurinn í höndum hinna ungu leikara var e.t.v. nokkuð hikandi á frumsýningunni. Tónlistin skipar veigamikinn sess og textarnir eru dásamlegir eins og vænta mátti af höfundum.

3I7A4465Að frátöldum þesssum sparðatíningi er óhætt að segja að sýning Freyvangsleikhússins á Klaufum og kóngsdætrum sé hreint dásamleg fjölskylduskemmtan eins og heyra mátti á hlátrasköllum ungra sem aldinna á frumsýningunni. Sýningin er enn ein rós í hnappagat Freyvangsfólks sem lætur sér annt um ungdóminn bæði í hópi áhorfenda og þá nýju kynslóð leikara sem þarna fær tækifæri til að skapa og þroskast í félagsskap þeirra sem eldri eru.

Við mælum svo sannarlega með þessari ágætu fjölskylduskemmtun. Gleðin hefur völd og við hlógum dátt þessa kvöldstund í Freyvangsleikhúsinu.

Íris Ólöf Sigurjónsdóttir

Hjörleifur Hjartarson

3I7A3451