Eins og síðasta vetur ætlar Freyvangsleikhúsið að efna til haustverkefnis í ár. Að þessu sinni er það leikritið Bannað börnum sem sett verður upp.
Bannað börnum er erótísk hryllingskómedía eftir félaga í Freyvangsleikhúsinu. Verkið gerist í nútímanum en sækir innblástur sinn í íslenskar þjóðsögur.
Fyrsti samlestur verður í Freyvangi þriðjudaginn 17. ágúst kl. 20:00. Allir velkomnir.
Dagana 10.-15. ágúst heldur Bandalag íslenskra leikfélagafjölþjóðlega leiklistarhátíð í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Hátíðin er á vegum NEATA, Norður-Evrópska áhugaleikhúsráðsins og verða þar sýndar leiksýningar frá öllum Norðurlöndunum, Lettlandi, Litháen, Rúmeníu og Frakklandi. Frítt er inn á allar sýningar og framlag Freyvangsleikhússins, Vínland, verður lokasýning hátíðarinnar kl. 20:00 13. ágúst í stóra salnum í Hofi. Hátíðin verður sett að kvöldi þriðjudagsins 10. ágúst og verða allar leiksýningar og aðrir viðburðir hátíðarinnar í Menningarhúsinu Hofi. Alls er reiknað með að um 250 manns taki beinan þátt í hátíðinni.
Þema hátíðarinnar er Maður – Náttúra og einkunnarorðin eru Af hjartans list
Eigum við að drepa prestinn?
Hátíðin beinir sjónum að manneskjunni og samskiptum hennar við náttúruna, bæði hvað varðar óblíð náttúruöflin og mannlega náttúru; eilífa baráttu við hatur, ástríður, fordóma og svo mætti lengi telja. Alls verða sýndar 12 leiksýningar á hátíðinni, þar af þrjár íslenskar. Það eru Umbúðalaust frá Leikfélagi Kópavogs í leikstjórn Vigdísar Jakobsdóttur, Birtingur frá Leikfélagi Selfoss og Vínland frá Freyvangsleikhúsinu, báðar í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar.
Auk leiksýninga verður boðið upp á þrjár leiksmiðjur á meðan á hátíðinni stendur, leiðbeinendur á þeim eru Ágústa Skúladóttir, Bernd Ogrodnik og Rúnar Guðbrandsson. Jafnframt mun hátíðarklúbbur verða starfræktur þar sem þátttakendur á hátíðinni munu skemmta sér og öðrum. Boðið verður uppá gagnrýni á sýningar hátíðarinnar og verða gagnrýnendur Dr. Danute Vaigauskaite frá Háskólanum í Klaipeda, Litháen og Þorgeir Tryggvason, leiklistargagnrýnandi og formaður Bandalags íslenskra leikfélaga.
Bandalag íslenskra leikfélaga skipuleggur leiklistarhátíðina í samvinnu við Norður-Evrópska áhugaleikhúsráðið (NEATA), Norræna menningarsjóðinn, Menntamálaráðuneytið, Akureyrarbæ og Menningarhúsið Hof.
Freyvangsleikhúsið ætlar eftir áramót að setja á svið ,,Dýrin í Hálsaskógi“ eftir Torbjörn Egner og mun Ingunn Jensdóttir leikstýra verkinu. Vegna þessa verða áheyrnar- og textaprufur fyrir börn á aldrinum 8-12 ára (3.-7. bekkur) í Hjartanu í Hrafnagilsskóla sunnudaginn 8. nóvember n.k. Prufurnar hefjast kl. 15:00 og allir áhugasamir velkomnir.
Sambærilegar prufur verða fyrir þá sem eldri eru í Freyvangi mánudaginn 9. nóvember kl. 19:00. Áhugasamir hvattir til að mæta.
Af óviðráðanlegum orsökum fellur niður sýning á Memento Mori á laugardagskvöldið 24 október næstkomandi. Því verður föstudagssýningin lokasýningin á þessu ágæta verki.
Þeir sem enn eiga eftir að sjá verkið ættu því að drífa sig á sýningu annaðkvöld.
Sýningar á Memento Mori eru í fullum gangi og nú um næstu helgi verður lokasýning,, á föstudagskvöldið 23. október, klukkan 20:30. Miðaverð er eingöngu kr 1.500,- og hægt er að panta miða í gegnum síma 857-5598, hér á síðunni er einnig hægt að panta miða undir flipanum Panta miða hér að ofan. Svo er líka hægt að nálgast miða í Pennanum – Eymundsson.
Kabarettstarfið er hægt og rólega að fara á stað, nú þegar hafa verið haldnir tveir fundir og sá þriðji verður núna á fimmtudagskvöldið næstkomandi klukkan 20:30 í Freyvangi, allir sem áhuga hafa á að vera með eru hjartanlega velkomnir.
Síðast liðinn föstudag var Memento mori frumsýnt fyrir fullum minni sal Freyvangsleikhússins í Freyvangi. Allt gekk að óskum og það voru ánægðir leikarar sem stigu af sviði að sýningu lokinni og skemmtu sér fram eftir nóttu í góðra vina hópi. Við þökkum öllum frumsýningargestum fyrir frábærar móttökur og hlökkum til að sjá sem flesta á sýningum á Memento mori á næstunni.
Við viljum vekja athygli á því að miðaverð er einungis kr. 1.500,- og hægt er að panta miða hér á síðunni undir flipanum Panta miða hér fyrir ofan og í síma 857 5598. Einnig að einungis verður sýnt í október þar sem stefnt er að því að sýna Kabarett 2009 fyrstu helgina í nóvember. Við hvetjum því alla til að tryggja sér miða í tíma og bendum á að þeir eru einnig seldir í Pennanum-Eymundsson. Hér má einnig sjá umfjöllun N4 um leikritið.
Þá styttist í frumsýningu á Memento Mori en frumsýning er föstudaginn 2. október kl. 20:30. Næsta sýning er svo laugardaginn 3. október kl.20:30. Miðaverði er sérstaklega stillt í hóf eða aðeins 1.500,- kr.
Nánari upplýsingar er væntanlegar á síðuna. Bendum á að hægt er að nálgast miða á sýninguna í Pennanum/Eymundsson Hafnarstræti. Einnig er hægt að panta miða hér á síðunni með því að smella á flipann: Panta miða hér fyrir ofan.
Aðalfundur Freyvangsleikhússins verður haldinn í Freyvangi fimmtudaginn 3. september n.k kl. 20:00. Dagskrá – hefðbundin aðalfundarstörf. Rætt um verkefni komandi leikárs. Allir velkomnir.